Bíða enn tveggja „mikilvægra úrskurða“

Mótmæli á Austuvelli í gær vegna brottvísunarinnar.
Mótmæli á Austuvelli í gær vegna brottvísunarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það að kenna fjölskyldunni um tafir er í besta falli afbökun á sannleikanum og í versta falli helber lygi,“ segir Magnús D. Norðdahl, lögmaður Kehdr-fjöl­skyld­unn­ar, sem átti að senda úr landi í morgun, um ummæli sviðsstjóra hjá Útlendingastofnun. Fjölskyldan bíður enn tveggja „mikilvægra úrskurða“ að sögn Magnúsar.

Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, sagði í Kastljósi í gær að unnt hefði verið að senda fjölskylduna úr landi í byrjun árs en tvö útrunnin vegabréf hefðu komið í veg fyrir það. Til þess að endurnýja þau hefðu foreldrarnir þurft að sækja um framlengingu tveggja barna sinna en ekki verið viljugir til þess. Af þeim sökum hefðu yfirvöld þurft að óska eftir nýjum vegabréfum og það ferli hafi tekið marga mánuði. 

„Er í myrkrinu eins og aðrir

Fjölskyldunni var ekki vísað úr landi í morgun en hún var ekki á fyr­ir ­fram ákveðnum stað þar stoðdeild hugðist fylgja þeim úr landi. Ekki er vitað um dval­arstað fólks­ins sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra. Magnús hafði ekki heyrt frá fjölskyldunni þegar blaðamaður ræddi við hann. 

„Það er slökkt á símunum þeirra og ég er í myrkrinu eins og aðrir með það.“

Magnús segir að öll vegabréfin hafi verið í gildi til 28. janúar. Því hafi lögreglan haft 50 daga til að vísa fjölskyldunni úr landi. 

„Úrskurðurinn er kveðinn upp 14. nóvember og hann er birtur umbjóðendum mínum 18. nóvember. Þá fá þau 30 daga frest til að yfirgefa landið sem rennur út 18. desember þannig að þessi úrskurður er framkvæmdarhæfur 18. desember. Frá 18. desember til 28. janúar, rétt tæpa 50 daga, voru öll sex vegabréfin gild og þá hefði mátt flytja þau úr landi en það var ekki gert,“ segir Magnús. 

Egypsku börnin sem átti að senda úr landi í morgun …
Egypsku börnin sem átti að senda úr landi í morgun ásamt foreldrum þeirra. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Óttast handtöku

Þorsteinn sagði að aðstoðar við að endurnýja vegabréfin hafi verið óskað frá fjölskyldunni en hún ekki veitt hana. Magnús hefur ekki séð nein gögn um slíkt.

Fjölskyldan óttast að fjölskyldufaðirinn og móðirin jafnvel líka verði handtekin ef þau verða að lokum send til Egyptalands, að sögn Magnúsar. Útlendingastofnun hafi ekki borið brigður á trúverðugleika fjölskyldunnar og því ekki dregið það í efa að fjölskylduföðurnum hefðu borist líflátshótanir í heimalandinu. 

Frá mótmælunum í gær.
Frá mótmælunum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið dómsmál myndi „galopna málið“

„Málið í heild sinni verður lagt til úrlausnar fyrir dómi. Það verður krafist ógildingar á þeim úrskurðum sem þegar hafa verið kveðnir upp og eins þeim úrskurðum sem væntanlegir eru frá nefndinni því hún á enn eftir að taka afstöðu til tveggja mikilvægra endurupptökubeiðna sem á borði nefndarinnar eru,“ segir Magnús. 

Kærunefnd útlendingamála hefur ekki neitað að taka afstöðu til þeirra en sagðist ekki ná því fyrir brottvísun. 

„Það voru þrjár beiðnir á borði þeirra í gær. Ein um frestun réttaráhrifa og tvær endurupptökubeiðnir. Þeir svöruðu kröfunni um frestun réttaráhrifa en endurupptökubeiðnunum er ósvarað. Enn er beðið tveggja mikilvægra úrskurða í málinu.“

Spurður hvort enn séu þá líkur á að fjölskyldunni verði veitt hæli hér á landi segir Magnús: 

„Ef dómsmál myndi vinnast þar sem þessir úrskurðir yrðu ógiltir með dómi og þau hafi í raun átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þá myndi það galopna málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert