20 til 25 þúsund grímur til framhaldsskóla

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Hari

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur tryggt framhaldsskólum aðgang að 20 til 25 þúsund grímum sem Landspítalinn mun útvega í dag.

Með þessu á að tryggja að staðnám verði að mestu leyti óbreytt, að því er Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra greinir frá á facebooksíðu sinni.

Þar segist hún hafa átt í miklum samskiptum við heilbrigðisyfirvöld um helgina um næstu skref. Skólahald verði með óbreyttum hætti og áhersla lögð á staðnám en nú með notkun andlitsgríma.

Fram kemur í uppfærðum leiðbeiningum ráðuneytisins að skylt sé fyrir nemendur, kennara og annað starfsfólk framhalds- og háskóla að nota grímu í skólabyggingum og í öllu skólastarfi.

„Við funduðum með skólameisturum og rektorum landsins í dag og var gott hljóðið í öllum. Ég vil þakka þeim öllum fyrir þolinmæðina og baráttuviljann í þessari þriðju bylgju!“ skrifaði hún seint í gærkvöldi.mbl.is