„Fólk er einmana og hrætt“

„Þessi streita sem er í samfélaginu hefur áhrif. Maður finnur …
„Þessi streita sem er í samfélaginu hefur áhrif. Maður finnur meiri spennu og fólk sem er andlega viðkvæmt á meira bágt núna en áður fyrr.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi streita sem er í samfélaginu hefur áhrif. Maður finnur meiri spennu og fólk sem er andlega viðkvæmt á bágara núna en áður fyrr. Við finnum það í símtölum og heimsóknum til okkar að þessi hópur á erfiðara núna en fyrir Covid,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.  

Fimmtán sálfræðingar hafa komið til starfa hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu  á síðustu mánuðum til að mæta þessum vanda að sögn Óskars. Í heild starfa um 50 sálfræðingar á vegum heilsugæslunnar. „Það eru skipulagðir sérstakir tímar hjá sálfræðingunum til að taka viðtöl og í mörgum tilfellum er hægt að tengja þetta ástandinu með beinum hætti,“ segir Óskar. 

Dreifist jafnt eftir aldurshópum 

Á hverri stöð á höfuðborgarsvæðinu eru að meðaltali einn og hálfur til þrír sálfræðingar sem sinna þessum verkefnum. Ástæða þess að hægt hefur verið að ráða fleiri sálfræðinga er að sögn Óskars aukið framlag ríkisstjórnarinnar til geðheilbrigðisþjónustu upp á 540 milljónir króna. 

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Fólk er einmana og hrætt og svo er þetta aukið þunglyndi,“ segir Óskar. 

Bæði eru barna- og fullorðinssálfræðingar á heilsugæslunum og hann segir að aukin tíðni heimsókna til sálfræðinga dreifist jafnt eftir aldurshópum. „Við erum nokkuð viss um það að eftirköstin muni vara næstu tvö árin. Það er alltaf þannig þegar alvarleg áföll dynja á heimsbyggðinni,“ segir Óskar. 

Snúið að bólusetja alla vegna inflúensunnar

Hvað önnur almenn verkefni varðar segir Óskar að næst á dagskrá sé að bólusetja tugþúsundir manna vegna árlegrar inflúensu. Hann segir það geta verið snúið að taka á móti þúsund aukaheimsóknum á heilsugæslu umfram það sem er vanalegt. Ein leiðin sé að horfa til skimunarinnar á Suðurlandsbraut þar sem skimaðir eru allt að 4.000 einstaklingar á dag. 

„Hvað heimsóknir varðar þá reynum við að afgreiða það símleiðis sem hægt er. Áskoranirnar eru biðstofurnar. Við höfum verið með mismunandi ráð eftir því hver heilsugæslan er,“ segir Óskar. 

Hann segir að ekki sé margt starfsfólk sem ekki hefur getað mætt til vinnu vegna sóttkvíar eða einangrunar. „Þetta voru 10-12 fyrir helgi. Okkar smitvarnir eiga að vera þannig að þótt einhver lendi í sóttkví eða smitist þá eiga ekki margir að lenda í sóttkví,“ segir Óskar.  

Hann tekur sig sem dæmi. Þegar hann mætir til vinnu þá fer hann beint inn á læknastofu og svo bara út án þess að eiga í beinum samskiptum við aðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert