Koma til móts við smærri fyrirtæki

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Arnþór

Ríkisstjórnin mun koma til móts við þau smærri fyrirtæki sem hafa þurft að loka vegna nýrra sóttvarnaaðgerða. Vinna stendur yfir í Stjórnarráðinu og væntir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þess að komnar verði nokkuð mótaðar tillögur þess efnis síðar í þessum mánuði.

Síðasta vor var fyrirtækjum komið til aðstoðar með lokunarstyrkjum og er verið að fara yfir reynsluna af því. „Það mun þurfa að koma til móts við þessa aðila,“ segir Katrín.

„Auðvitað koma þessar ráðstafanir mjög misjafnlega niður á ólíkum fyrirtækjum. Við erum að einhverju leyti með almennar aðgerðir sem miðast við tekjutap en við erum að sjálfsögðu að hugsa um þá sem beinlínis þurfa að loka,“ segir hún en á meðal fyrirtækja sem hafa þurft að loka eru hárgreiðslu- og snyrtistofur.

Með grímur á hárgreiðslustofunni Hár og heilsa í Bergstaðarstræti í …
Með grímur á hárgreiðslustofunni Hár og heilsa í Bergstaðarstræti í ágúst síðastliðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Varðandi almennu aðgerðirnar segir Katrín ýmislegt í undirbúningi. Farið verður í aðgerðir sem voru boðaðar í tengslum við síðasta lífskjarasamning. Komið verður til móts við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegu tapi og eru fyrirtæki í ferðaþjónustunni þar mest áberandi. Einnig verður m.a. komið til móts við tónlistar- og sviðslistafólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert