Dómurinn innan þess ramma sem ákæruvaldið setti

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveggja ára skilorðsbundinn dómur Héraðsdóms Suðurlands yfir Guðmundi A. Birgissyni, sem oft er kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi, vegna skilasvika og peningaþvættis, var innan þess ramma sem ákæruvaldið lagði fram. Saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara segir að ekki verið lagt til sérstaklega við ríkissaksóknara að áfrýja málinu, en það er ríkissaksóknari sem tekur lokaákvörðun um hvort áfrýja eigi máli eða ekki.

Finnur Vilhjálmsson rak málið fyrir héraðssaksóknara og hann segir að eins og málið hafi verið vaxið og tiltekið er í dóminum, með hliðsjón af drætti í rannsókn málsins, hafi embættið ekki út á dóminn að setja.

Hann segir við mbl.is að það hafi legið fyrir að upphæðir skilasvikanna hafi verið fordæmalausar og það hafi virkað til refsiþyngingar. „Fjárhæðir brotanna voru langtum hærri upphæðir en í fyrri skilasvikamálum hér á landi,“ segir hann. Á móti hafi komið hversu málið hafi dregist í rannsókn. Slíkt hafi bæði haft áhrif á refsingu og að dómurinn hafi verið skilorðsbundinn.

Finnur Vilhjálmsson saksóknari.
Finnur Vilhjálmsson saksóknari. mbl.is/Hari

Málið kom fyrst á borð lögreglunnar árið 2015 eftir að skiptastjóri kærði brot Guðmundar. Eins og mbl.is hefur fjallað um reyndi Guðmundur meðal annars að koma undan fasteignum á Spáni, á Flórída og í New York, auk listaverks og eigna í bandarískum fjárfestingasjóði.

Finnur segir að í málflutningi hafi ákæruvaldið farið fram á 2 til 2,5 ára fangelsisdóms í ljósi atvika málsins, en tekið fram að ekki væru gerðar athugasemdir ef dómur yrði skilorðsbundinn. Í dómi málsins kemur einnig fram að tekið sé tillit til þess að Guðmundur hafi játað brot sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert