Þriggja milljarða aukning í háskóla- og rannsóknastarfssemi

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Hari

Framlög til háskóla og rannsóknastarfsemi aukast um 7% milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Þau eru áætluð 44 milljarðar króna og aukast um tæpa 3 milljarða frá árinu 2020 sé miðað við fast verðlag. 

Áætluð framlög stjórnvalda til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina nema tæpum 26 milljörðum samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Nemur hækkun milli ára um 9,1 milljarði. Er þetta liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, en áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaráætlun. 

 „Ríki sem hafa markað sér skýra stefnu um að fjárfesta í hugviti, rannsóknum og nýsköpun vegnar vel. Við höfum alla burði til að auka verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti. Með því tryggjum við farsælan grunn að sterkara samfélagi,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningu. 

Aukin framlög til háskóla vegna fjölda brautskráninga nema 647 milljónum, en auk þess er ráðgert í frumvarpinu að 500 milljónir renni sem beint framlag til kennslu í háskólum, til þess að bregðast við áhrifum Covid-19. Gert er ráð fyrir að ráðstöfun þess framlags verði lokið við 2. umræðu um fjárlögin eftir því sem segir í tilkynningu. 

Þá er fjárheimild málaflokksins aukin um 300 milljónir  vegna Nýsköpunarsjóðs námsmanna.  Árvisst framlag í sjóðinn hefur verið um 50 milljónir undanfarin ár en verður 355 milljónir á næsta ári samkvæmt frumvarpinu. Tvær úthlutanir sjóðsins á þessu ári tryggðu 552 nemendum styrki til að vinna að nýsköpunarverkefnum sínum í sumar en 400 milljónum kr. var þá veitt aukalega til sjóðsins í gegnum fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. 

Þá hækka framlög til háskóla um 159 milljónir til að fjölga námsplássum í hjúkrunarfræði og koma á fót fagnámi fyrir sjúkraliða.

mbl.is