Verða fyrir ofbeldi og finna til streitu

Allir lögreglumenn í nýrri rannsókn segjast hafa fundið fyrir streitu …
Allir lögreglumenn í nýrri rannsókn segjast hafa fundið fyrir streitu í starfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nýlegri rannsókn kemur fram að allir lögreglumenn hér á landi finni til streitu í starfi. Þá segja flestir lögreglumenn að þeir hafi orðið fyrir ofbeldi í starfi og flestir segjast hafa séð samstarfsfélaga sína beita harðræði við störf. Enginn lögreglumaður sagðist þó hafa beitt harðræði sjálfur. Þórunn Kristjánsdóttir kynnir niðurstöður rannsókna sinna í málstofu Þjóðarspegils Háskóla Íslands um afbrot og löggæslu sem fram fer rafrænt á morgun.

Þórunn tók viðtöl við 10 lögreglumenn sem höfðu fjölbreyttan bakgrunn og niðurstöðurnar voru allar á svipaða leið. Lögreglumenn voru sammála um að þeir upplifðu streitu og yrðu fyrir ofbeldi í starfi. Einnig sögðu þeir að þeim fyndist eins og þeir ættu sér engan málsvara í fjölmiðlum.

Þórunn Kristjánsdóttir.
Þórunn Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Við greiningu á niðurstöðunum komu fram fimm þemu: Starfsánægja, ofbeldi, streita, verklag og fjölmiðlaumfjöllun,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is

„Þrátt fyrir að flestir ef ekki allir lögreglumenn sem ég ræddi við hafi lýst áhuga á starfi sínu sem ást við fyrstu sýn, segja þeir allir að þeir upplifi streitu við störf sín. Algengasti streituvaldurinn er óöryggi, sem lýsir sér oft þannig að þeir átti sig eftir útkall á að þeir hafi verið settir í mun hættulegri aðstæður en þeir gerðu fyrst ráð fyrir.

Þannig lýsti einn lögreglumaður því að hann hafi farið í húsleit þar sem fjölmargir menn voru fyrir og einnig fundust vopn á staðnum, en lögreglan hafði engin vopn meðferðis.“

Verða fyrir ofbeldi en geta ekkert gert

Þórunn segir einnig að lögreglumenn segjast flestir hafa orðið fyrir ofbeldi í starfi. Þá er átt við ofbeldi sem valdi meiðslum umfram almennt hnjask sem lögreglumenn verða fyrir í störfum sínum. Þá segja margir að þeim finnist þeir standa einir á báti.

„Lögreglumenn sem verða fyrir ofbeldi verða að kæra brotið í eigin nafni og finnst það oft óþægilegt. Þeir eiga sér engan málsvara og vilja ekki að kæran bitni á einkalífinu. Þeir vildu margir heldur að þeir kært yrði í nafni embættisins ef lögreglumenn verða fyrir ofbeldi á vettvangi.“

Þá segir Þórunn að flestir lögreglumenn hafi séð starfsfélaga sína beita borgara harðræði en enginn sagðist þó hafa beitt harðræði sjálfur.

Fjölmiðlaumfjöllun dulin streituvaldur

Með breyttum tímum segir Þórunn að störf lögreglu séu sífellt meira í sviðsljósinu. Það geti valdrið streitu.

„Fólk er í dag bara með símana á lofti og tekur upp ef það sér lögregluna vera að gera eitthvað eins og að handtaka einhvern. Hins vegar er sjaldnast allur aðdragandinn með í myndböndum af störfum lögreglunnar og samhengið skekkist því oft. Ef sést til lögreglumanns beita valdi við handtöku án þess að neitt samhengi liggi fyrir, þá lítur það eðlilega illa út. Valdbeiting lítur aldrei vel út.“

mbl.is