Komust hjá uppsögnum með stækkun

Í vor þegar ljóst var í hvað stefndi vegna heimsfaraldursins var ákveðið að stækka garðyrkjustöðina í Friðheimum um ríflega helming. Þannig var hægt að koma í veg fyrir uppsagnir hjá mörgum lykilstarfsmönnum fyrirtækisins. Nú eru framkvæmdir langt komnar við byggingu á 5.600 fermetra gróðurhúsi.  

Átta störf skapast við stækkunina og Knútur Rafn Ármann, framkvæmdastjóri Friðheima, býst við því að starfsmannafjöldi fyrirtækisins verði í heild í kringum 60 manns þegar nýja aðstaðan verður tekin í notkun. Starfsmannahópinn segir hann vera hjartað í ferðaþjónustuhluta fyrirtækisins og því var farið í að leita leiða til að koma hópnum í gegnum erfiðleikana ásamt fyrirtækinu. „Þá værum við með innviðina. Þekkinguna og reynsluna sem við erum búin að byggja upp og gætum þá farið á fullu af stað aftur í sama styrk og áður,“ segir Knútur í samtali við mbl.is.

Ferðaþjónustan í Friðheimum hefur vaxið hratt á þeim tólf árum sem liðin eru frá því að Knútur og Helena Hermundardóttir konan hans opnuðu gróðurhúsið og tóku að bjóða gestum upp á tómatsúpu og fræðslu um íslenska ylrækt. 

Reykholt dafnar þrátt fyrir erfitt ár

Þau Knútur og Helena hafa sérhæft sig í tómataræktun og reiknað er með að hægt verði að rækta um 450 tonn af tómötum á ári í nýja gróðurhúsinu. En fleiri garðyrkjubændur eru í Reykholti á Suðurlandi þar sem Friðheimar eru og þar er líka verið að stækka. Í Gufuhlíð er mikil agúrkuframleiðsla þar sem verið er að reisa 2.000 fermetra viðbót við stöðina og í Espiflöt, þar sem afskorin blóm eru ræktuð, er verið að stækka um 1.000 fermetra. Í heild er því verið að bæta um 9.000 fermetrum við gróðurhús bæjarins á árinu. Við það má svo bæta að fyrir skömmu hófust framkvæmdir á 40 herbergja hóteli í bænum.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert