Fjármagninu verði beint á réttan stað

Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.
Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka. Ljósmynd/Aðsend

Aðalhagfræðingur Kviku banka segir að stór hluti fjármagnsins sem hefur verið sett í umferð til að styðja við hagkerfið vegna kórónuveirukreppunnar hafi runnið á fasteignamarkaðinn í stað þess að beina því til fólks og fyrirtækja sem hafa lent í mesta áfallinu.

Kristrún Mjöll Frostadóttir aðalhagfræðingur telur að Seðlabankinn eigi að hvetja ríkissjóð til að styðja betur við þá sem lenda þessu áfalli, meðal annars þeim stóra hópi sem hefur misst vinnuna, og vill að fjármagninu verði beint á réttan stað.

Taka tekjufallið á sig 

Í Kastljósi í kvöld sagði hún að stór hópur fólks úti í samfélaginu finni ekkert fyrir núverandi ástandi nema að hann getur ekki farið út á meðal fólksins eins og hann gerði áður. „Það er annar hópur sem er að taka tekjufallið að öllu leyti á sig og það skiptir gríðarlega miklu máli þegar við erum í svona viðkvæmu ástandi að peningum sé ekki deilt til fólks sem þarf ekki á því að halda,“ sagði Kristrún.

Hún benti á að oft heyrist talað um svigrúmið sem ríkissjóður hafi. Nú síðast í morgun hafi seðlabankastjóri talað um það. „Málið er að þetta er ekki alveg rétt. Kerfið í heild sinni hefur takmarkað svigrúm, einkageirinn plús opinberi geirinn og við erum að setja gríðarlega mikið fjármagn inn í einkageirann, inn á fasteignamarkaðinn, inn á eignamarkaði, til í rauninni einstaklinga sem samkvæmt Seðlabankanum sjálfum stóðu betur en meðalmaðurinn, skulda lítið og eru með háar tekjur,“ sagði hún.

„Þess vegna er verið að veita þeim þessi lán. Þá þýðir það að svigrúmið í kerfinu fyrir ríkissjóð að taka þennan pening og veita þeim sem eru að lenda í gígantísku ytra áfalli er minna fyrir vikið.“

mbl.is