Þrjár nýjar sundlaugar rísa og jafnmargir skólar

Mynd úr safni. Allar sundlaugar landsins eru lokaðar sem stendur …
Mynd úr safni. Allar sundlaugar landsins eru lokaðar sem stendur en skólasund er leyfilegt sem og sundæfingar barna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg ætlar að byggja þrjár nýjar sundlaugar, knatthús, íþróttaaðstöðu og sjóbaðsaðstöðu á næstu tíu árum. Borgaryfirvöld stefna einnig á að reisa nýja skóla í Skerjafirði, Vogabyggð og Ártúnshöfða. Þá ætlar borgin sér að verða „hjólaborg á heimsmælikvarða“ og er stefnt á að 10.000 íbúðir verði byggðar í Reykjavík á næstu tíu árum. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í „Græna planinu“, uppbyggingaráætlunar Reykjavíkurborgar til ársins 2030. 

Borgin ætlar sér að fjárfesta fyrir alls 175 milljarða á næstu þremur árum en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá gerir borgin ráð fyrir ellefu milljarða króna halla á næsta ári, helst vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar. 

Fimleikahús í Breiðholti og Árbæ

„Lýðheilsa, hreyfing og íþróttaþátttaka verður efld með fimleikahúsum í Breiðholti og Árbæ, knatthúsi í Vesturbæ og betri íþróttaaðstöðu víða um borgina. Þrjár nýjar sundlaugar eru á tíu ára áætlun; í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Elliðaárvogi,“ segir í tilkynningu um planið. 

Þá er á planinu uppbygging útivistasvæða víða um Reykjavík, sérstaklega í Elliðaárdal og Öskjuhlíð, auk sjóbaðsaðstöðu við strandlengjuna. Græna planið gerir ráð fyrir því að vetrargarður í Breiðholti og skíðasvæðin í Bláfjöllum verði stórelfd, útivistaraðstöðu bætt við Rauðavatn og á Hólmsheiði þar sem einnig verða gerðar reiðleiðir. 

Í Árbæ á að rísa fimleikahús á næstu tíu árum.
Í Árbæ á að rísa fimleikahús á næstu tíu árum. mbl.is/Sigurður Bogi

10.000 íbúðir fyrir 12 milljarða

Eins og áður segir ætlar borgin sér fjárfesta í uppbyggingu 10.000 íbúða í Reykjavík á næstu tíu árum. Kostnaður við þetta er metinn á 12 milljarða. 

„[Íbúðirnar] verða af öllum stærðum og gerðum, fyrir allan aldur og tekjuhópa,“ segir planinu. 

Auk þess að gera ráð fyrir uppbyggingu þriggja nýrra skóla þá stefnir borgin einnig á að fjölga leikskólaplássum svo mögulegt sé að taka ársgömul börn inn á leikskólana. 

Þá segir í Græna planinu að með Borgarlínu, orkuskiptum og hjólastígakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið verði „bylting í grænum samgöngum. Reykjavík verður hjólaborg á heimsmælikvarða. Grænar fjárfestingar í samgöngusáttmála ríkis og SSH í Reykjavík verða yfir 50 milljarðar til 2030.“

mbl.is