Bæta 55,3 milljörðum við fjárlögin

Mynd fjárlaga næsta árs er tekin að skýrast.
Mynd fjárlaga næsta árs er tekin að skýrast. Kristinn Magnússon

Meirihluti fjárlaganefnar hefur birt nefndarálit á fjárlagafumvarpi næsta árs. Í því er gert ráð fyrir aukningu á ríkisútgjöldum upp á 55,3 milljarða miðað við fyrstu tillögur. Leggja má breytingarnar til jafns við nýtt fjáraukalagafrumvarp. 

Helgast breytingarnar að mestu af auknum fjárheimildum vegna aðgerða stjórnvalda af völdum heimsfaraldurs, þ.e. síðasta aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar vegna efnahagsástandsins í kjölfar heimsfaraldurs.

Þyngst vega 19,8 milljarðar vegna viðspyrnustyrkja og 6 milljarðar vegna framlengingar á hlutabótaleiðinni svokallaðri. 

Þá voru grunnbætur og greiðslur vegna framfærslu barna hækkaðar. Auk þessa var bætt verulega við ýmis félagsleg úrræði fyrir viðkvæma hópa samfélagsins.

Óbreyttar forsendur

Áfram er gert ráð fyrir 3,9% hagvexti á næsta ári samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Ekki var gefin út ný hagspá á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga ársins 2021.

Spáin byggir á að ekki þurfi að grípa til harðra sóttvarnaraðgerða á næsta ári og að ferðamönnum fjölgi um helming á næsta ári, þ.e. að ferðamenn verið um 900 þúsund.

Þó kemur fram í nefndaráliti meirihluta að efnahagsframvindan hefur reynst lakari en gert var ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram. „Sú efnahagsþróun er nær því sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti sem dökka sviðsmynd í greinargerð með fjármálaáætlun,“ segir í nefndaráliti meirihluta.

200 milljarða bein áhrif

Fjárhagslegt mat á beinum áhrifum á afkomu ríkissjóðs vegna aðgerða stjórnvalda sem tilkomnar eru sem mótvægi við heimsfaraldrinum eru 200 milljarðar á A-hluta í ár og á næsta ári.

Þá eru einungis talin bein áhrif. „Heildaráhrif á hið opinbera og hagkerfið allt eru margfalt meiri þar sem samdrátturinn í efnahagslífinu hefur bein áhrif til lækkunar á tekjum bæði opinberra aðila og einkaaðila,“ segir í nefndaráliri meirihluta.

Tekjuáætlun RÚV uppfærð

Framlag til Ríkisútvarpsins eykst um 140 milljónir.

Það er í samræmi við tekjuáætlun af útvarpsgjaldi en tekjuáætlun var uppfærð á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga. 

Aukin lántaka 

Í einni af fimm breytingartillögum meirihlutans er lögð til heimild til lántöku upp á 220 milljarða, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Það er til viðbótar við lántökuheimild sem þegar er í frumvarpinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert