Nánast engir ferðamenn á landinu

Það eru ekki margir erlendir ferðamenn á landinu um þessar …
Það eru ekki margir erlendir ferðamenn á landinu um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrirtækin eru fyrst og fremst að þrauka veturinn,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður hvernig ferðaþjónustufyrirtækin takist á við gildandi takmarkanir. Hann gerir ráð fyrir því að ferðamenn á landinu séu á bilinu 1.500 til 2.000 talsins en á bilinu 3.500 til 5.000 manns hafa verið að koma til landsins alls mánaðarlega.

Hvaða þjónustu eru ferðamenn að sækja sér hér á landi?

„Það eru nánast engir ferðamenn á landinu, það er nær engin þjónusta í eðlilegu horfi núna. Það eru flest hótel á landinu lokuð, þau sem eru opin eru kannski helst að horfa til helganna hjá Íslendingum,“ segir Jóhannes.

Í venjulegu árferði hafa ferðamenn verið á bilinu 30 til 40 þúsund yfir jólin og áramótin en Jóhannes segir að flestir sem koma til landsins nú séu Íslendingar og fólk sem stundar atvinnu hér á landi.

„Eina vísbendingin sem við höfum er að horfa til þeirra þjóðerna sem við vitum að fólk sem býr og vinnur hér á landi tilheyrir annars vegar og þjóðerni þeirra sem koma hingað í frí, hins vegar,“ útskýrir hann. Af því fáist að ferðamennirnir séu á bilinu 1.500 til 2.000 talsins eins og fram hefur komið.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ferðaþjónustan verði …
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ferðaþjónustan verði að fara í gang í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta verður einfaldlega að fara í gang í sumar“

Jóhannes segir ferðaþjónustufyrirtækin verða að ná viðspyrnu í sumar, annars verði vegferðin lengri fyrir íslenskt samfélag. Fyrirtækin séu þegar farin að undirbúa sig fyrir sumarið og markaðsstarfið fari væntanlega af stað eftir veturinn.

„Þetta bara einfaldlega verður að fara í gang í sumar. Fyrirtækin eru mjög skuldsett og koma mjög skuldsett út úr þessum vetri. Það er von til þess að þetta fari að hreyfast eitthvað í apríl. Við þurfum að eiga gott sumar í júní, júlí og ágúst og inní veturinn en grundvallaratriðið er að við fáum einhverja sýn frá stjórnvöldum, sem á að verða þann 15. janúar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert