Bóluefnið á leið á 21 stað á landsbyggðinni

Frá flutningi Jóna Transport í morgun.
Frá flutningi Jóna Transport í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Dreifing bóluefnis Pfizer á landsbyggðinni hófst í morgunsárið þegar fyrstu bílarnir frá Jónum Transport óku frá Reykjavík með efnið á 21 stað á landsbyggðinni. Klukkan níu fara fram fyrstu bólusetningarnar við Covid-19 hérlendis. Það verður gert í húsakynnum landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þar verða fjórir heilbrigðisstarfsmenn úr fyrsta forgangshópi samkvæmt reglugerð bólusettir. 

Streymt verður beint frá fundinum hér á mbl.is. 

Að lokinni bólusetningu klukkan 09:00 mun Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefja bólusetningu á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð. 

Upplýsingafundur klukkan 11

Þá verður upplýsingafundur klukkan ellefu vegna Covid-19. Þar fara Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Alma D. Möller landlæknir yfir stöðu faraldursins hér á landi ásamt Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem ræðir fyrirkomulag bólusetninga.

Jónar Transport sjá um dreifingu á bóluefninu frá Pfizer á landsbyggðinni og munu dreifa fyrir Distica hér vel fram á næsta ár.

„Það var afar ánægjulegt að fylgja fyrstu sendingunum úr hlaði í morgun og það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þessa bólusetningarverkefnis fyrir heilsu Íslendinga og í kjölfarið fyrir lífsgæði okkar og efnahag. Eftir átta vikna þrotlausan undirbúning er gleðilegt að vera bæði búinn að taka við fyrstu sendingunni og jafnframt koma henni af stað til viðtakenda, bæði í borg og á landsbyggð,“ er haft eftir Kristjáni Pálssyni, framkvæmdastjóra Jóna Transport, í tilkynningu.

Jónar Transport sérhæfa sig meðal annars í lyfjaflutningum til og frá landinu, bæði í flugi og sjóflutningum. Bílar frá fyrirtækinu keyra á Vestfirði, Suðurland, Norðurland og Austurland og jafnframt verður flogið með bóluefnið á Egilsstaði og þaðan verður því dreift. Hið sama má segja um Bíldudal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert