Svíar sjá um sölu Moderna-bóluefnis til Íslands

Vonir eru bundnar við að bóluefni Moderna fái markaðsleyfi í …
Vonir eru bundnar við að bóluefni Moderna fái markaðsleyfi í Evrópu 6. janúar. AFP

Svíar munu hafa milligöngu um sölu á bóluefni frá fyrirtækinu Moderna til Íslands og Noregs. Þetta kom fram á blaðamannafundi sænsku ríkisstjórnarinnar í dag. Svíar hafa áður haft aðkomu að sölu á bóluefni til Íslands gegnum samstarfsverkefni Evrópusambandsins.

Á blaðamannafundinum sagði Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, að þörfin fyrir samstöðu innan Evrópusambandsins og Norðurlanda væri orðin enn meiri á tímum heimsfaraldurs. Því sé gleðilegt að fjórði samningur um sölu bóluefna hafi verið undirritaður.

Samningurinn kveður á um að Íslendingar fái 128.000 skammta af bóluefni frá Moderna, en þeir duga til að bólusetja 64.000 einstaklinga. Er það jafnmikið og ríki Evrópusambandsins fá, miðað við höfðatölu. Áætlað er að bóluefnið fái markaðsleyfi í Evrópu 6. janúar 2021.

Íslendingar hafa tryggt sér kaup á bóluefni frá fjórum framleiðendum, allt í samstarfi við Evrópusambandið og í gegnum Svía. Sá fyrsti var samningur við Astra Zeneca í október, en síðar komu samningar við Pfizer/BioNTech og Janssen.

mbl.is