Rann nánast stjórnlaust niður fjallið

Ásdís og mágkonur hennar á toppi Uppsalahnjúks í Eyjafirði.
Ásdís og mágkonur hennar á toppi Uppsalahnjúks í Eyjafirði. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís Arnardóttir komst í hann krappan á Uppsalahnjúk í Eyjafirði í vor þegar hún rann tugi metra niður fjallið, nánast stjórnlaust. Hún segir atvikið dæmi um mikilvægi þess að fólk sem hyggi á fjallgöngur sæki sér fræðslu um viðeigandi búnað í þeim og læri að meta þær hættur sem geta komið upp. Ásdís telur sérstaklega mikilvægt að vekja athygli á þeim hættum sem ber að varast þar sem áhugi á fjallgöngum hafi aukist.

Ásdís var á ferð með mágkonum sínum þegar óhappið varð. Um var að ræða hlýja vordag í júní síðastliðnum. Hún meiddist ekki.

 „Þegar maður er kominn ofarlega þarf maður að þvera mjög langa fönn. Það var í sjálfu sér ekkert mál. Það voru vel mörkuð spor og þetta var hinn prýðilegasti dagur,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

Á niðurleiðinni gekk Ásdís yfir fönnina og þá brotnaði úr slóðinni undan henni.

„Ég tókst einhvern veginn á loft og þaut af stað niður þennan bratta, eiginlega stjórnlaust og hraðinn bara jókst,“ segir Ásdís.

Hér má sjá stíginn sem Ásdís og mágkonur hennar fetuðu …
Hér má sjá stíginn sem Ásdís og mágkonur hennar fetuðu í fönninni og hvar Ásdís rann. Leiðin sem hún rann er hér mörkuð eins og lína á ská, út frá stígnum. Ljósmynd/Aðsend

Hélt að hún myndi detta úr axlarlið

Hún var ekki með göngustafi en telur að þeir hefðu getað bjargað henni í þessum aðstæðum þar sem hún bjó yfir þekkingu til þess að stoppa sig með þeim.

„Ég man að ég hugsaði strax að ég væri ekki að fara að stoppa. Ég rann á hliðinni og vinstri handleggurinn sveiflaðist fyrir ofan höfuð algjörlega stjórnlaust og ég hugsaði að ég myndi fara úr axlarlið,“ segir Ásdís sem telur að hún hafi runnið einhverja tugi metra niður fjallið.

Hún er í gönguhóp sem gengur á fjöll á öllum árstíðum. Hópurinn hafði lært að nota brodda og exi og hugsaði Ásdís á meðan hún rann niður brattan hve mikill klaufaskapur það væri að vera ekki með exina. Hún vildi ekki stinga niður hæl eða tá því þá er hætta á fótbroti. Ásdís þurfti þá að finna aðrar leiðir til að stöðva sig. Hún endaði á því að velta sér á grúfu og náði að draga undir sig olnboga og hné til að hægja ferðina. Þá loksins stöðvaði hún, tugum metra neðar en hún var áður en atvikið átti sér stað.

Ásdís Arnardóttir á fjöllum.
Ásdís Arnardóttir á fjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Rétt slapp við stórgrýti

 „Mér var rosalega brugðið. Það var líka misbratt og ég fór fram af einhverju sem var örugglega gömul hengja. Ég fann um leið og ég fór þar fram af hvað ég jók hraðann,“ segir Ásdís sem stóð upp eftir að hún stöðvaði ferðina og tók mynd af leiðinni sem hún hafði runnið. Þá tók hún eftir því að hún hafði rétt sloppið við að renna á stórgrýti.

Aðspurð segir Ásdís að hún hefði getað stórslasast og brotið bein.

„Ég var ekki með hjálm. Það er eitt af því sem fólk þarf að athuga þegar það er komið í svona aðstæður, þá á maður auðvitað að vera með hjálm. En ég tek það fram að aðstæður þennan daginn voru í raun ekki slæmar, það var enginn klaki eða neitt þannig. Það var bara þessi bratti. Í svona mjúkum snjó hefði maður getað beitt göngustaf til þess að stinga niður en þá þarf maður að vera á grúfu og passa sig að vera ekki að reyna að stoppa sig með fótunum. Fólk hefur fótbrotnað og ökklabrotnað þannig.“

Ásdís rann nokkra vegalengd, rétt fram hjá grjóti.
Ásdís rann nokkra vegalengd, rétt fram hjá grjóti. Ljósmynd/Aðsend

Kom Ásdísi í opna skjöldu

Í sjálfu sér voru aðstæðurnar því ófyrirsjáanlegar enda gera slysin ekki boð á undan sér. Leiðin sem Ásdís gekk er nokkuð fjölfarin.

„Eftir á að hyggja þá kom það mér í svo opna skjöldu því þetta virtist svo sakleysislegt. Snjórinn var mjúkur og byrjaður að bráðna. Slóðin var auðveldlega mörkuð og auðvelt að ganga í henni, þetta var bara eins og kindagata í gegnum þessa fönn.“

Ásdís deildi reynslu sinni á umræðuhóp kvenna um útivist á Facebook. Hún segir að atvikið hafi vakið hana til umhugsunar.

„Við höfum Esjuna hérna nálægt okkur. Það er mikið gengið á hana og það hefur örugglega aukist mjög mikið en hún er stórhættuleg. Hún er brött og í vetraraðstæðum þá getur hún bara verið klakabrynjuð og menn vita alveg hvernig það getur farið eins og dæmin sanna,“  segir Ásdís.

Glöð að sjá áhuga fólks 

Umræða um mikilvægi þess að kunna að nota brodda og axir og vera við öllu búinn hefur aukist á áðurnefndum umræðuhóp síðan um helgina þegar fólk slasaðist á fjöllum í grennd við höfuðborgarsvæðið.

„Ég er rosalega glöð að sjá að það er mjög mikill áhugi hjá félögum í þessum hóp að fara á námskeið, kynna sér þetta, læra að beita búnaðinum. Reynslan kennir fólki hvaða aðstæður eru hættulegar. Það er kannski mikill hugur í fólki að fara. Veðrið er gott og fjöllin falleg en aðstæður geta samt verið hættulegar,“ segir Ásdís.

Hún telur að það hafi bjargað henni í þessu tiltekna atviki að hafa sóst eftir fræðslu um fjallamennsku.

 „Það var haft í flimtingum stundum í gönguhópnum mínum að það væri ekki nóg að halda á exinni og vera í broddunum og nota þetta svo eins og leikmuni. Maður þarf að kunna að nota búnaðinn,“ segir Ásdís.  

„Það er náttúrulega mikil umræða um þess hálkubrodda sem eru stundum kallaðir Esjubroddar en á  þeim er auðvelt að ganga sig upp í sjálfheldu. Þú getur gengið upp brattar hlíðar á þeim en svo kemstu bara ekki niður aftur. Maður veit af þannig dæmum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert