„Svolítið krítískur tími“ fyrir Guðmund

Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson Nowakowska sem hann …
Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson Nowakowska sem hann kynntist úti í Lyon. mbl.is/Hari

Næstu dagar eru „svolítið krítískur tími“ fyrir Guðmund Felix Grétarsson, sem fékk grædda á sig handleggi á sjúkrahúsi í Lyon í Frakklandi í fyrradag, að sögn föður Guðmundar. Hann segir fjölskylduna lifa í nokkurri óvissu sem stendur.

„Mér líður bara alveg ljómandi vel. Það er ekkert annað hægt að segja,“ segir Grétar Felix Felixson, faðir Guðmundar.

Guðmundur missti báða handleggina í vinnuslysi árið 1998. Hann er nú á gjörgæslu. Spurður hvernig Guðmundur hafi það segir Grétar:

 „Ég hef ekki frétt neitt enn þá, ekki í dag. Það lofaði mjög góðu með hann í gær þegar þau byrjuðu að vekja hann.“

Átta ára bið lokið

Aðgerðin tók um fjórtan tíma og gekk vel en Grétar segist ekki vita hvernig hún fór fram í smáatriðum.

„Við vitum voðalega lítið um þetta. Við vitum að hún var gerð og í stórum dráttum hvernig þetta fór. Þeir hafa haldið þessu fyrir sig en upplýst okkur um gang mála. Ég get ekki einu sinni sagt til um það hvort eitthvað kom upp á eða ekki,“ segir Grétar.

Þetta bar væntanlega brátt að?

„Auðvitað gerir það alltaf. Við erum búin að bíða eftir þessu í átta ár. Þannig lagað erum við bara búin undir það.“

Guðmundur er á gjörgæslu

Spurður hvort biðin hafi verið erfið segir Grétar að erfitt sé ekki rétta orðið.

„Auðvitað vildi maður hafa hlutina öðruvísi en við höfum bara reynt að halda áfram lífinu og gera okkar besta í málunum.“

Grétar og móðir Guðmundar hafa flakkað á milli Íslands og Frakklands síðan biðin hófst fyrir átta árum. Móðir Guðmundar hefur búið í Frakklandi síðustu ár.

„Við vitum ekkert hvað er fram undan eða hvað gerist þegar hann vaknar. Auðvitað er þetta svolítið krítískur tími núna og átti ekkert að vera á vitorði fólks fyrr en erfiðustu tímarnir væru liðnir hjá. Við lifum svolítið í óvissunni,“ segir Grétar.

„Hann er á gjörgæslu og verður það áfram. Það tekur ákveðinn tíma að vekja hann upp. Hann er settur í mjög djúpan svefn. Það verður byrjað að létta á því í dag og það tekur einn eða tvo daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert