Mátti hafa opið inni á lokuðu safni

Safninu bar að loka. En veitingasalan þar mátti vera opin, …
Safninu bar að loka. En veitingasalan þar mátti vera opin, segir heilbrigðisráðuneytið. Því fær veitingasalan engan lokunarstyrk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirskattanefnd hefur staðfest úrskurð Skattsins þess efnis að fyrirtæki, sem rak veitingasölu og mötuneyti í húsnæði safns, eigi ekki rétt á lokunarstyrk. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá.

Í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins var söfnum gert að loka um hríð. Veitingastöðum var hins vegar heimilt að hafa opið með takmörkunum.

Umrædd veitingasala er staðsett inni í safninu og neyddust eigendur því til að loka henni á sama tíma og safninu var lokað. Var því sótt um lokunarstyrk til Skattsins á þeim forsendum. Skatturinn taldi aftur á móti að ekki hefði þurft að loka veitingastaðnum þrátt fyrir þetta.

Kærðu eigendur veitingasölunnar þá ákvörðun til yfirskattanefndar og bentu á að rekstur staðarins væri algjörlega háður því að safnið væri opið. Var því farið fram á að fá greiddan lokunarstyrk.

Óskað var eftir áliti heilbrigðisráðuneytisins á málinu. Í erindi ráðuneytisins kemur fram að þrátt fyrir að safninu hafi verið skylt að loka þá hafi það ekki gilt um matsöluna. Segir að veitingastaðnum hefði hugsanlega verið „unnt að útfæra opnun staðarins í samráði við leigusala eða aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum með einhverjum hætti, eins og margir hafi gert“.

Sýna beri því skilning að starfsemi staðarins hafi lagst niður að verulegu leytui þegar safninu var óheimilt að starfa. Aftur á móti verði ekki séð að lög um fjárstuðning til minni aðila vegna kórónuveirufaraldursins heimili fjárstuðning vegna „afleiddra lokana“.

Með þessum rökum staðfesti yfirskattanefnd, sem fyrr segir, úrskurð Skattsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert