„Alveg meiri háttar“ að fá strax 70% vernd

Hjúrkunarheimilið Mörk við Suðurlandsbraut.
Hjúrkunarheimilið Mörk við Suðurlandsbraut. mbl.is/aðsend

Um 1.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila á höfuðborgarsvæðinu fóru í fyrstu bólusetningu gegn Covid-19 í dag. Bólusetningin var framkvæmd með bóluefni AstraZeneca og fæst um 70% vernd með fyrsta skammtinum. Seinni skammturinn verður svo gefinn að þremur mánuðum liðnum.

Hluti starfsfólks Grundarheimilanna var á meðal þeirra sem fóru í bólusetningu í dag. Gísli Páll Gíslason forstjóri Grundarheimilanna var virkilega ánægður með að bólusetning starfsfólks væri hafin þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum í dag. 

„Auðvitað tekur þetta einhverja þrjá mánuði en þetta er mjög góð byrjun. Þetta veitir strax 70% vernd sem er alveg meiri háttar,“ sagði Gísli. 

Gísli Páll Gíslason er að vonum ánægður með að bólusetningu …
Gísli Páll Gíslason er að vonum ánægður með að bólusetningu flestra heimilismanna sé lokið og bólusetning starfsfólks sé hafin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ágætisáhugi á störfum síðustu mánuði

Spurður hvort slakað yrði á reglum um heimsóknir vegna bólusetningarinnar sagði Gísli að lítils háttar tilslakanir kæmu til skoðunar þegar allt starfsfólk hefði fengið fyrstu sprautuna. Gísli tók þó fram að reglur um heimsóknir væru ekki stífar þótt þær væru aðeins mismunandi á milli heimila. 

„Þetta er alveg þolanlegt fyrir flesta aðila og á bara eftir að batna.“

Aðspurður sagðist Gísli ekki merkja aukinn áhuga á störfum hjá Grundarheimilunum vegna bólusetningarinnar en ágætisáhugi hefði verið á störfum síðastliðna mánuði. Spurður hvort nýtt heimilisfólk og starfsfólk fengi bólusetningu við komuna framvegis sagði Gísli að líklega fengi fólkið bólusetningu fljótlega eftir að það flytti inn á heimilin eða byrjaði að starfa þar þó einhverjir dagar eða vikur gætu liðið þar til bólusetning færi fram. 

mbl.is

Bloggað um fréttina