30 til 35 millimetra úrkoma á Seyðisfirði

Frá Seyðisfirði eftir að stórar aurskriður féllu þar í desembermánuði.
Frá Seyðisfirði eftir að stórar aurskriður féllu þar í desembermánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsvert mikil úrkoma var á Seyðisfirði í nótt eins og sérfræðingar Veðurstofu Íslands gerðu ráð fyrir. Engar fréttir hafa borist af nýjum skriðuföllum en það verður kannað betur bráðlega. Úrkoman náði líklega 30 til 35 millimetrum. 

Þetta segir Tómas Jóhannesson, sérfræðingur á ofanflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands. 

Um 100 íbúar í 46 húsum á Seyðisfirði rýmdu hús sín í gærkvöldi vegna skriðuhættu á svæðinu. Fyrr um daginn hafði ríkislögreglustjóri, í samstarfi við Veðurstofuna og lögreglustjórann á Austurlandi, lýst yfir hættustigi á svæðinu.

„Við eigum von á því að rigningin hætti núna upp úr miðjum morgninum, það dragi úr henni fljótlega og þá verður rýmingin endurskoðuð núna upp úr hádeginu,“ segir Tómas. 

Skoða aðstæður bráðlega

Rýmingin var framkvæmd í varúðarskyni þar sem óvissa er um stöðug­leika hlíðanna í Botna­brún eft­ir skriðuföll­in í des­em­ber 2020 og hvernig jarðlög bregðast við ákafri úr­komu. 

„Það hefur verið talsvert mikil úrkoma í nótt, eins og við gerðum ráð fyrir. Hún náði kannski 30 til 35 millimetrum síðla nætur. Við erum að fara til þess að skoða en höfum ekki fengið neinar fréttir af skriðuföllum.“

Magn úrkomu er gefið upp í millimetrum og jafngildir 30 til 35 millimetra úrkoma því að 30 til 35 millimetra lag af vatni hafi lagst yfir alla jörðina í námunda við úrkomumælinn. Þetta magn jafngildir 30 til 35 lítrum á fermetra, miðað við svar Trausta Jónssonar veðurfræðings á Vísindavefnum. 

Rík­is­lög­reglu­stjóri hef­ur lýst yfir hættu­stigi á Seyðis­firði vegna hættu á skriðuföll­um. Þetta er gert í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Aust­ur­landi og Veður­stofu Íslands. Ákveðið hef­ur verið að rýma öll hús við Botna­hlíð, tólf hús við Aust­ur­veg, þrjú hús við Foss­götu, sjö hús við Hafn­ar­götu, eitt hús við Múla­veg og eitt hús við Baugs­veg fyr­ir klukk­an sjö í kvöld.

mbl.is