Kann að „virka grimmt“ utan frá

„Maður skilur alveg að þegar fólk stendur utanfrá og horfir á þetta, þá kunni þetta að virka svolítið grimmt,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, um ákvarðanir sem eru teknar í málum á borð við mál Uhunomas Osayomores sem hefur verið í umræðunni að undanförnu.

Einstök mál eru bundin trúnaði og hann getur ekki tjáð sig um þau en bætir því við að: „Þarna er verið leggja á borðið einhverskonar frásögn. Við förum í gegnum okkar ferli sem er unnið gagnvart lögmanni og öðrum [þar á meðal] Kærunefnd útlendingamála sem fer í gegnum þessi mál og endurskoðar þau,“ segir Þorsteinn í viðtali við mbl.is sem er hægt að horfa á í meðfylgjandi myndskeiði.

Á morgun mun allsherjar- og menntamálanefnd fjalla um meðferð mansalsmála í tilefni af þeim viðbrögðum sem mál Uhunoma hefur fengið í samfélaginu en í gær fengu þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhentar 45 þúsund undirskriftir þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að grípa inn í ferlið en Kærunefnd útlendingamála synjaði honum sem kunnugt er um dvalarleyfi hér á landi.

Mál Uhunoma Osayomore hefur vakið mikla athygli undanfarnar vikur. Nú …
Mál Uhunoma Osayomore hefur vakið mikla athygli undanfarnar vikur. Nú mun umgjörð mansalsmála verða til umfjöllunar hjá Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vegna þess. mbl.is/Hallur Már

Synjunin hefur helst verið gagnrýnd á þeim forsendum að Uhunoma hafi lent í mansali og kynferðisofbeldi á leið sinni til landsins en sú fór hófst þegar hann var á barnsaldri. Á sínum tíma flúði hann heimalandið eftir að hafa orðið vitni að því þegar faðir hans veitti móður hans áverka sem drógu hana til dauða. Magnús Norðdahl, lögmaður Uhunoma, hefur gagnrýnt það að stjórnvöld meti ástandið í Nígeríu þannig að öruggt sé fyrir Uhunoma að snúa aftur til heimalandsins. Bæði sé afar vafasamt að lögregla geti tryggt öryggi Uhunoma gagnvart föður sínum sem hefur að sögn hótað honum en einnig að geðheilbrigðisþjónusta í landinu sé ekki með því móti að hægt verði að veita Uhunoma þá þjónustu sem hann þarfnast vegna andlegra veikinda sem hafa fylgt.

Þorsteinn segir að alltaf sé gott að taka til umræðu mál sem komi upp í kerfinu. Með því öðlist almenningur betri innsýn í verkferla og starf Útlendingastofnunnar. Þegar kemur að málsmeðferð í mansalsmálum sé það fyrst og fremst hlutverk stofnunarinnar að meta þörf einstaklinga fyrir vernd á Íslandi. 

„Við það mat þá horfum við til aðstæðna í því ríki sem viðkomandi kemur frá og yrði sendur tilbaka til.“ Þess vegna skipti máli hvar mansalið á sér stað, hvenær það gerist og þá er reynt að meta hvað gerist þegar viðkomandi yrði sendur tilbaka til síns heimalands. 

Samstöðufundur á Arnarhóli í síðustu viku vegna fyrirhugaðrar brottvísunar Uhunoma …
Samstöðufundur á Arnarhóli í síðustu viku vegna fyrirhugaðrar brottvísunar Uhunoma Osayomore. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérstaklega er metin hættan á að einstaklingurinn, sem er í þessu tilviki hinn 21 árs gamli Uhunoma, verði aftur fyrir mansali þegar heim er komið. Það er væntanlega ein af forsendum fyrir neitun Kærunefndarinnar á dvalarleyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða. Að hann verði ekki aftur fyrir mansali þegar aftur er komið til Nígeríu. Krafa um endurupptöku hefur lögð fram.

Magnús segir í samtali við mbl.is að ekki verið tekið fullt tillit til stöðu Uhunoma sem fórnarlambs mansals þar sem að Útlendingastofnun hafi ekki náð að greina öll merki þess í viðtölum við drenginn. GRETA sem eru alþjóðleg samtök sérfræðinga í baráttu gegn mansali gerðu fyrir nokkrum misserum greiningu á meðhöndlun stjórnvalda á mansalsmálum hér á landi. Þar kom fram að ýmislegt hefði verið gert til að gera málsmeðferð þeirra betri og skilvirkari hér á landi. Hinsvegar koma þar einnig fram gagnrýni á þeim forsendum að hægt væri að gera betur þegar kemur að því að bera kennsl á fórnarlömb mansals og þá meðtalin börn. 

Þorsteinn bendir einnig á að innan dómsmálaráðuneytisins sé verið að vinna í þessum málum og að ávallt sé verið að leita leiða til að bæta verkferla innan stofnunarinnar og í meðferð mála þar. 

„Við reynum að útskýra eins vel og við getum fyrir fólki hvaða réttindi það hefur,“ segir hann í samtali mbl.is og bendir á að í viðtölum sé mikil áhersla lögð á að sé einhver vafi á því að fullur skilningur sé á milli skjólstæðings og túlka eða annarra starfsmanna sé brugðist við því.   

mbl.is