Afhentu 45 þúsund undirskriftir

Vinir og vandamenn Uhunoma Osayomore afhentu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra ríflega 45.000 undirskriftir þar sem yfirvöld eru hvött til að endurskoða ákvörðun um að veita honum ekki alþjóðlega vernd. En fjallað hefur verið um málið hér að undanförnu á mbl.is.

Það var rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sem afhenti Katrínu undirskriftasöfnunina, sem hann sagði vera þá tíundu stærstu í Íslandssögunni, og hvatti um leið stjórnvöld til að „endurskoða kerfin sem vilji henda honum [Uhunomu] úr landi“.

Í samtali við mbl.is tekur Katrín undir að 45.000 undirskriftir sé mikill fjöldi en spurð út í hvort kerfið sé réttlátt ef það vísi fórnarlambi mansals úr landi svaraði hún: „Kerfið okkar á að virka þannig að þeir sem þurfi vernd fái vernd.“

Áslaug Arna vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina