Kosningaþefur af bólusetningardagatali

Andrés Magnússon, Aðalheiður Ámundadóttir og Björn Ingi Hrafnsson voru fyrstu …
Andrés Magnússon, Aðalheiður Ámundadóttir og Björn Ingi Hrafnsson voru fyrstu gestir Silfursins þennan sunnudaginn. Skjáskot/RÚV

Samhljómur var meðal gesta í Silfri Ríkisútvarpsins nú fyrir hádegi um að erfitt hafi verið að fá upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu það sem af er kórónuveirufaraldrinum. Kosningaþefur væri af nýbirtu bólusetningardagatali sem ráðuneytið útbjó.

Þar má finna upplýsingar um afhendingaráætlanir bóluefnaframleiðenda út marsmánuð og spá um afhendingu bóluefna út júnímánuð. Þar er því spáð að bólusetningu gegn kórónuveirunni verði lokið um mánaðamótin júní-júlí. 

„Ég spurði Þórólf á upplýsingafundi á fimmtudag og það er greinilegt að hann er ekki enn þá sannfærður. Hann segist bara geta unnið út frá þeim tölum sem hann hafi, því bóluefni sem hann er viss um að komi, sem er auðvitað alveg rétt,“ sagði Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, um orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um að hann gæti ekki unnið út frá öðru en tölum yfir þau bóluefni sem víst væru að kæmu til landsins. Þar á hann við afhendingaráætlanir út mars.  

„Ég meina að hann er sérfræðingur, hann er ekki að hugsa um alþingiskosningarnar,“ bætti Björn Ingi svo við, en hann var gestur Silfursins að þessu sinni ásamt Aðalheiði Ámundadóttur, blaðakonu á Fréttablaðinu, og Andrési Magnússyni, blaðamanni Morgunblaðsins.

Þá sagði Björn Ingi einnig að í upphafi faraldursins hér á landi hefðu sérfróðir aðilar séð um að fara fyrir sóttvarnaaðgerðum en þegar umræður um bólusetningar urðu háværari, og loks þegar bólusetning hófst hafi stjórnmálafólk haft sig meira í frammi. Það sagði hann að virtist skipta máli.

Ekki vitað hvað gerðist

Aðalheiður Ámundadóttir sagði að ekki væri hægt að segja til um hvort morðið í Rauðagerði sé birtingarmynd þess að erlend glæpaöfl séu farin að færa sig upp á skaftið hér á landi. Ekki væri nægilega mikið vitað um hvað hafi raunverulega gerst í málinu til þess að slá neinu slíku föstu. Voru gestir Silfursins sammála um að lögregla hefði haldið þétt að sér spilunum hvað upplýsingagjöf varðar vegna málsins.

Þannig hafði Aðalheiður uppi varnaðarorð um að ekki sé æskilegt að stjórnmálafólk geri sér mat úr morðmálinu í Rauðagerði til þess að ala á útlendingaandúð og skapa sér þannig fylgi.

„Auvitað grasserar allt í samsæriskenningum og kjaftasögum og maður heyrir mikið af alls konar sögum hvort heldur maður er að tala við fólk sem lifir og hrærist í undiheimum, hvort sem maður er að tala við lögmenn eða lögreglu, að þá eru miklar getgátur um hvað þarna gerðist.“

„Það er alltaf líka hætta á því og maður hefur áhyggjur af því að einhverjir muni nýta sér þetta í einhverjum pólitískum tilgangi til þess að ala á útlendingaandúð, það er auðvitað víðs fjarri að það sé eitthvert tilefni til þess út af þessu máli. Bara af því við vitum einfaldlega ekkert, í rauninni, hvað gerðist,“ sagði Aðalheiður.

Þá benti Andrés Magnússon á að umræða færi fram á kaffistofum um hverjir ættu aðild að þessu máli og að hann hafi flett í blöðum aftur í tímann til að grennslast fyrir um þá einstaklinga sem bæri á góma. Hann hafi komist að því að fátt væri um slíka menn að finna nema á gulu síðum blaðanna og þegar fjallað er um fasteignaviðskipti þeirra upp á hundruð milljóna.

„Getur verið að lögreglan, með alla sína greiningarstarfsemi, hafi einskis orðið áskynja?“ spurði Andrés þá og bætti við: „Getur verið að Skatturinn, sem er hér að bögga fólk út af smámunum og af minnsta tilefni, að þetta hafi allt saman farið fram hjá þeim?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert