Metmagn kannabisefna

Kannabisplöntur í fullum blóma.
Kannabisplöntur í fullum blóma. mbl.is/Júlíus

Lögregla og tollgæsla virðast hafa lagt hald á metmagn kannabisefna á síðasta ári, ef horft er til bráðabirgðatalna sem ríkislögreglustjóri hefur gefið út, þar sem sjá má samanburð við fyrri ár aftur til ársins 2014.

Samanlögð þyngd þeirra kannabisplantna sem lagt var hald á nam rúmlega 37 kílóum. Til samanburðar nam þyngdin tæpum 12 kílóum árið 2019. Á þessu árabili hafði hún mest náð um 22,5 kílóum árið 2018.

Fjöldi plantnanna sem lagt var hald á var þó svipaður og árið 2019, eða um 5.400 stykki, og fjölgaði þeim um minna en hundrað.

86.819 kíló fundust af því sem nefnt er í skýrslu ríkislögreglustjóra „maríhúana“, og er þar einnig um met að ræða á sama árabili. Þyngd kannabislaufa sem lögregla lagði hald á minnkar aðeins á milli ára, eða úr um 54 kílóum árið 2019 í rúmlega fimmtíu á síðasta ári.

Langflest brotin fyrir vörslu og meðferð efna

Athygli vekur að lögregla virðist eiga mun oftar við þá sem neyta vímuefna eða hafa þau í fórum sínum.

Þannig voru skráð 1.334 brot í flokki vörslu og meðferðar fíkniefna, en aðeins 162 brot sem varða flutning fíkniefna, og 180 sem varða sölu og dreifingu þeirra. Skráð var 91 brot vegna framleiðslu fíkniefna.

Frá kannabisræktun. Mynd úr safni.
Frá kannabisræktun. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Neysla og sala leyfð annars staðar

Á sama tíma og kröftum íslensku lögreglunnar er varið í að eltast við neytendur og seljendur kannabisefna hefur notkun og sala sömu efna verið leyfð samkvæmt lögum víða annars staðar á undanförnum árum, þar á meðal í Kanada og Úrúgvæ, auk fjórtán ríkja Bandaríkjanna.

Mun fleiri ríki hafa ákveðið að ekki skuli refsað fyrir neyslu þeirra eða vörslu neysluskammta.

Þingmenn demókrata á Bandaríkjaþingi hafa enn fremur lýst því yfir að þeir muni reyna að aflétta refsilöggjöf alríkisins í málaflokknum.

Niðurlægt og auðmýkt

Norska ríkisstjórnin kynnti einnig fyrir helgi að hún hygðist af­nema refs­ing­ar fyr­ir neyslu­skammta fíkni­efna.

„Við af­nem­um refsi­á­byrgð fyr­ir neyslu og vörsl­u lít­illa skammta fíkni­efna til eig­in neyslu. Þetta tákn­ar að efn­in eru eft­ir sem áður bönnuð en refs­ing­arn­ar eru af­numd­ar,“ sagði heilbrigðisráðherrann Bent Høie á blaðamannafundi fyrir helgi.

„Við ætl­um ekki leng­ur að standa hjá og horfa á fólk niður­lægt og auðmýkt og það kallað glæpa­menn þegar það í raun stríðir við van­heilsu,“ sagði menntamálaráðherrann Guri Mel­by.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert