Bóluefni komið í æðar rúmlega 6%

Bóluefni Pfizer/BioNTech rennur í flestum íslenskum æðum, en tæplega 12.000 …
Bóluefni Pfizer/BioNTech rennur í flestum íslenskum æðum, en tæplega 12.000 manns hafa fengið bólusetningu með efninu og þar af hafa 9.305 fengið fulla bólusetningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 6% þeirra sem býðst bólusetning hér á landi hafa nú fengið eina eða tvær sprautur af bóluefni gegn Covid-19. Öll bóluefnin sem eru komin hingað til lands þarf að gefa í tveimur skömmtum svo einstaklingur sé talinn bólusettur. 

Um 280.000 manns fá boð í bólusetningu hérlendis, allir sem hér eru búsettir og eru fæddir fyrir árið 2006. Bólusetning er hafin hjá 6.825 manns og eru 10.554 fullbólusettir, alls eru þetta því 17.406 manns eða 6,2% þeirra sem á að bólusetja. 

Efni Pfizer í flestum íslenskum æðum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við blaðamann mbl.is í gær að bólusetning barna sem fædd eru 2006 eða síðar sé ekki í kortunum, hún hafi ekki verið rædd alvarlega. Því má gera ráð fyrir því að þeim sem boðin er bólusetning muni ekki fjölga, í það minnsta ekki í nánustu framtíð. 

Bóluefni Pfizer/BioNTech rennur í flestum íslenskum æðum, en tæplega 12.000 manns hafa fengið bólusetningu með efninu og þar af hafa 9.305 fengið fulla bólusetningu. Næst flestir hafa komist í kynni við AstraZeneca, eða 2.831, en enginn hefur lokið bólusetningu með því bóluefni. Þrír mánuði líða á milli þess að fólki eru gefnir bóluefnaskammtar frá AstraZeneca en þrjár vikur líða á milli skammta frá Pfizer/BioNTech annars vegar og Moderna hins vegar.

Ísland í þrettánda sæti á heimsvísu

Ísland er nú í þrettánda sæti á heimsvísu yfir bóluefnaskammta á hverja 100 íbúa landsins en hér hafa um átta skammtar verið gefnir hverjum 100 íbúum. Þá er miðað við alla íbúa landsins, ekki bara þá 280.000 sem boðin verður bólusetning. 

Danmörk er eina Norðurlandið sem er ofar en Ísland á listanum en hún er í ellefta sæti listans með 8,6 skammta á hverja 100 íbúa. Noregur er svo í fjórtánda sæti á heimsvísu með 7,3 skammta á hverja 100 íbúa. Bólusetning virðist ganga ívið verr í Finnlandi og Svíþjóð, í hinu fyrrnefnda hafa 6,6 skammtar verið gefnir hverjum 100 íbúum en einungis 5,8 í hinu síðarnefnda. 

Munar 11,5 skömmtum á Evrópusambandsríkjum

Best gengur sem fyrr í Ísrael en þar hefur helmingur þjóðarinnar hafið eða klárað bólusetningu. Einnig gengur afar vel á Seychelles-eyjum, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem og í Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Enn eru þjóðir sem eru í samfloti með Evrópusambandinu hvað varðar kaup á bóluefnum nokkuð misvel staddar í þessum efnum. Serbíu gengur best af þeim ríkjum en þar hafa rúmlega 14 skammtar verið gefnir hverjum 100 íbúum landsins. Lettlandi gengur verst en þar hafa einungis 2,5 skammtar verið gefnir hverjum 100 íbúum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert