Hefðbundnar umferðarteppur myndast á ný

Samfélagið er að taka á sig eðlilegra horf og því …
Samfélagið er að taka á sig eðlilegra horf og því fylgja umferðarteppur.

Umferðaþungi hefur vaxið talsvert undanfarna daga og eru bílstjórar í vaxandi mæli farnir að upplifa umferðina eins og hún var í þá gömlu góðu daga áður en heimsfaraldur reið yfir. 

Árni Friðleifsson, aðalvarðastjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að hefðbundnar umferðateppur séu farnar að myndast víða. Til að mynda er talsverð teppa á Reykjanesbraut, Sæbraut og á Vesturlandsvegi þegar þessi orð eru skrifuð. 

„Umferðin hefur stigmagnast síðustu vikuna og við finnum fyrir því að skólarnir eru farnir að nálagst eðlilega starfsemi,“ segir Árni. 

Enginn að flýja jarðskjálfta

Hann segir þetta skýr merki um að samfélagið sé að fara í gang og sérstaklega hafi mikil umferð verið í kringum vetrarfrí í skólum í síðustu viku. „Við höfum ekki fengið fregnir af því að fólk sé að flýja bæinn vegna jarðskjálftanna enda engin fyrirmæli um slíkt. Ég vil bara biðja alla um að vera rólega. Við búum nú einu sinni á Íslandi,“ segir Árni léttur í bragði.   

mbl.is