Fékk að velja úr fimm bóluefnum

Ari Tómasson rekur hugbúnaðarfyrirtækið Breytu í Belgrad í Serbíu.
Ari Tómasson rekur hugbúnaðarfyrirtækið Breytu í Belgrad í Serbíu. Ljósmynd/Aðsend

Í janúar fékk Ari Tómasson boð frá sóttvarnayfirvöldum um að skrá sig í bólusetningu. Honum bauðst að velja úr fimm bóluefnum: Pfizer, Moderna, AstraZeneca, hinu kínverska Sinopharm og hinu rússneska Spútnik. Ari gaf upp að hann þæði þau öll og tæki einfaldlega við því sem byðist fyrst. 

Eins og ljóst er af ofangreindu bóluefnahlaðborði átti þetta sér stað utan Evrópusambandsins. Umrædd sóttvarnayfirvöld eru serbnesk og Ari hefur verið búsettur í Belgrad í tvö ár, þar sem hann rekur hugbúnaðarfyrirtækið Breytu. 

Það var síðan núna í vikunni sem Ari mætti á heilsugæslustöð og var bólusettur með AstraZeneca, þar sem aðrir höfðu afboðað sig þann dag. Í samtali við mbl.is segir hann það óraunverulegt að vera kominn með bólusetningu.

„Ég bara trúi þessu eiginlega ekki enn þá. Mér finnst líka mjög skrýtið að tala við mömmu og pabba heima á Íslandi, því ég vildi frekar að þau væru komin með bóluefni en ég,“ segir Ari. Bót í máli að Ísland sé að minnsta kosti Covid-laust í augnablikinu.

Ari þiggur hið breska Astra Zeneca bóluefni með þökkum.
Ari þiggur hið breska Astra Zeneca bóluefni með þökkum. Ljósmynd/Aðsend

Ari er hæstánægður með gestrisni Serba að bólusetja hann, útlendinginn. Árangur stjórnvalda þar er með því besta sem gerist í Evrópu og nú þegar hafa um 14,5% landsmanna verið bólusett, samanborið við um 7,5% hér á landi. Vegna bóluefnagnægðar eru Serbar meira að segja farnir að deila bóluefnum með öðrum löndum.

Önnur Evrópulönd líta til Serbíu

Ari útskýrir að úr því að Serbar eru ekki hluti af Evrópusambandinu sé þeim frjálst að afla sér bóluefnis utan þeirra samninga sem ríki sambandsins hafa skuldbundið sig í. „Þess vegna hefur maður séð það í fréttum undanfarið að sum lönd í Evrópu hafi verið að horfa til Serbíu og reynt að fá leyfi til að sækja bóluefni út fyrir sambandið,“ segir Ari.

Strangt til tekið mega ríki Evrópusambandsins leita út fyrir sambandið en ekki eru mörg dæmi þess að þau geri það í miklum mæli.

Samhliða því sem bólusetningum vindur fram segir Ari stemninguna í Serbíu verða betri og betri. „Ég var á skíðum fyrir tveimur vikum og þar var nánast karnívalstemning bara. Þetta hefur vissulega leitt til þess að smitum hefur aðeins fjölgað en samkomutakmarkanirnar hafa eiginlega ekki verið neinar, miðað við algert útgöngubann á kvöldin og um helgar þegar faraldurinn var nýskollinn á,“ segir hann.

Serbar frábært fólk

Seinni sprautuna fær Ari eftir 12 vikur og hann segist hafa verið slappur í mesta lagi hálfan dag eftir þá fyrri. Hann hefur ekki komið heim til Íslands frá þarsíðustu áramótum og er hæstánægður í Serbíu, þar sem hann rekur íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki með fyrst og fremst serbnesku starfsfólki.

„Serbar eru frábært fólk, opið og gestrisið og hafa tekið mér opnum örmum. Hér er frábært menningarlíf og mögnuð saga, ekki bara frá 10. áratugnum heldur einnig þar á undan. Þeir eru líka yndislegir heim að sækja, eins og allir sem koma hingað votta um,“ segir Ari. Hann segir einnig að mikil ánægja ríki um aðgerðir stjórnvalda í bóluefnamálum.

Bólusett í Belgrad. Serbar eru lengst komnir með bólusetningar af …
Bólusett í Belgrad. Serbar eru lengst komnir með bólusetningar af öllum ríkjum Evrópu, fyrir utan Breta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert