Covid tekið með í reikninginn

Kjósendur í sóttkví munu geta kosið heima hjá sér, verði …
Kjósendur í sóttkví munu geta kosið heima hjá sér, verði frumvarp dómsmálaráðherra samþykkt. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Dómsmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis þar sem meðal annars er gert ráð fyrir kórónuveirufaraldrinum.

Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða verði sett inn í lögin um að sýslumenn skuli í samráði við sóttvarnayfirvöld skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar fyrir þá sem ekki geta kosið á kjördag vegna sóttkvíar eða einangrunar af völdum Covid-19.

Komið verði upp sérstökum stað fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu þess hóps, sem muni þá geta fengið aðstoð trúnaðarmanns til að kjósa.

Enn fremur mun kjósandi í einangrun eða sóttkví, sem ekki getur mætt á kjörstað vegna þessa, eiga rétt á því að kjósa heima hjá sér, svo lengi sem hann tilkynnir það eigi síðar en klukkan 10 að morgni kjördags. Ákvæðið er til bráðabirgða og gildir út árið.

Ljóst er að yfirvöld ætla ekki að endurtaka þau mistök sem gerð voru í sumar þegar fjöldi fólks lenti í sóttkví stuttu fyrir forsetakosningar án þess að gerðar hefðu verið nokkrar ráðstafanir til að tryggja kosningarétt fólks í þeim aðstæðum. Snör handtök á kjördag urðu þó til þess að fólk fékk að kjósa.

Kosið verður til Alþingis 25. september.
Kosið verður til Alþingis 25. september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægt að safna meðmælum rafrænt

Fleiri breytingar er einnig að finna í frumvarpinu, sem eru ólíkt fyrri breytingum varanlegar. Lagt er til að stjórnmálaflokkar geti safnað meðmælum rafrænt fyrir þingkosningar, í stað þess að skilyrða söfnunina við skrifleg meðmæli.

Til að bjóða fram til Alþingis þarf flokkur að skila meðmælum frá minnst 30-földum fjölda þingsæta í viðkomandi kjördæmi. Þannig þarf að lágmarki 390 undirskriftir í Suðvesturkjördæmi, þar sem 13 þingmenn eru, en færri í öðrum kjördæmum. Hingað til hefur aðeins mátt safna meðmælum skriflega og hafa fulltrúar flokka oft komið sér fyrir á fjölförnum stöðum til að freista þess að fá gesti og gangandi til að skrifa undir.

En nú er útlit fyrir að tæknin leysi manninn enn á ný undan mannlegum samskiptum. Álíka breyting var gerð á lögum um kosningar til forseta í fyrra, en sú breyting var þó aðeins tímabundin vegna kórónuveirufaraldursins.

Breytingar á lögum sem á að fella úr gildi

Athygli vekur að frumvarpið snýr að breytingum á lögum sem til stendur að fella úr gildi. Fyrr á árinu var lagt fram frumvarp á þingi um ný lög um kosningar. Frumvarpið er afrakstur samráðs allra flokka á þingi, en það er lagt fram af Steingrími J. Sigfússyni, forseta þingsins.

Því er ætlað að leysa af hólmi fern lög, lög um kosningar til sveitarstjórna, lög um forsetakosningar og lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, auk fyrrnefnra laga um kosningar til Alþingis. Fjallað var um helstu atriði frumvarpins hér á mbl.is fyrr í vetur.

Til stóð að lögin tækju gildi 1. maí og myndu því leysa af hólmi gildandi lög um kosningar til Alþingis áður en til næstu kosninga kæmi, í september. Verði það frumvarp samþykkt óbreytt væri frumvarp dómsálaráðherra marklaust enda lögin fallin úr gildi.

Í umsögnum sveitarfélaga um málið mátti þó greina að mörgum þætti of skammur tími til stefnu til að undirbúa þær breytingar sem lagt er upp með, en meðal þess sem til stendur að breyta er framkvæmd talningar atkvæða. Þannig yrðu atkvæði talin í hverju sveitarfélagi fyrir sig, í stað þess að vera aðeins talin á einum stað.

Nú þegar dómsmálaráðherra hefur lagt fram breytingar á gildandi lögum má ætla að ekki standi til að fella þau úr gildi fyrir næstu alþingiskosningar. Frumvarpið er nú í samráðsgátt stjórnvalda en síðasti dagur til að senda inn umsagnir er í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert