Mál Ásmundarsalar enn til skoðunar

Ásmundarsalur er í eigu hjónanna Aðalheiðar Magnúsdóttur og Sigurbjörns Þorkelssonar.
Ásmundarsalur er í eigu hjónanna Aðalheiðar Magnúsdóttur og Sigurbjörns Þorkelssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meint sóttvarnabrot í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld eru enn til skoðunar hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta segir í svari lögreglu við skriflegri fyrirspurn mbl.is. Tveir og hálfur mánuður er liðinn frá því rannsókn lauk og málið var sent til ákærusviðs, en þar er tekin ákvörðun um hvort sektum verður beitt eða ekki.

Tæplega 50 manns voru í Ásmundarsal að kvöldi Þorláksmessu, þeirra á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, þegar lögregla leysti upp samkvæmið vegna brota á sóttvarnareglum. Á þessum tíma máttu ekki nema 20 manns koma saman. 

Eigendur staðarins, sem og Bjarni, báðust upphaflega afsökunar á brotunum. Síðar sneru eigendur vörn í sókn og héldu því fram að engar reglur hefðu í raun verið brotnar þar sem um listaverkasýningu hefði verið að ræða, en á þessum tíma mátti taka á móti fimm manns á hverjum 10 fermetrum í tilteknu rými í verslun. Í tilviki Ásmundarsalar eru það 35 manns í salnum en 50 í húsinu öllu.

mbl.is