Taka upp atriði fyrir Óskarinn á Húsavík

Frá Húsavík. Húsavíkurkirkja í forgrunni.
Frá Húsavík. Húsavíkurkirkja í forgrunni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson.

Húsvískur stúlknakór mun í dag syngja og taka upp atriði sem sýnt verður á Óskarsverðlaunahátíðinni. Stúlkurnar, sem eru sautján talsins og á aldrinum 10-11 ára, verða sænsku söngkonunni Molly Sandén innan handar, en hún kom til landsins með einkaþotu í gær af þessu tilefni.

Héraðsmiðillinn Vikublaðið greinir ítarlega frá þessu.

Hoppandi af gleði

„Ég er bara hoppandi af gleði,“ hefur blaðið eftir kórstjóranum Ástu Magnúsdóttur en hún er kórstjóri stúlknakórsins.

„Ég meina; þetta er Óskarinn,“ bætir hún við.

Venja er að lögin sem tilnefnd eru til verðlaunanna séu flutt á sviði á hátíðinni sjálfri, sem að þessu sinni fer fram aðfaranótt mánudagsins 26. apríl.

Fékk ekki atvinnuleyfi

Óvenjuleg atburðarás hafi hins vegar farið af stað fyrir fáeinum dögum vegna hertra reglna vestanhafs. Sandén fékk ekki tímabundið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og getur því ekki flutt lagið á sviði eins og til stóð, að því er fram kemur í Vikublaðinu.

Sú hugmynd hafi því vaknað að flutningur lagsins yrði tekinn upp á Húsavík og myndbandið sýnt á óskarsverðlaunaafhendingunni.

Tekið er fram í Vikublaðinu að Sandén hafi lent á Akureyri í gær. Hún hafi farið í sýnatöku áður en hún flaug til landsins og svo aftur eftir lendingu fyrir norðan.

mbl.is