Réðu 10 manns rétt fyrir hertar aðgerðir

Með ráðningunni var ætlunin að þjálfa starfsfólkið fyrir væntanlega sumartraffík. …
Með ráðningunni var ætlunin að þjálfa starfsfólkið fyrir væntanlega sumartraffík. Þá hafði Arinbjörn einnig lofað fleira fólki vinnu á næstunni. Ljósmynd/Aðsend

Veitingastaðurinn Greifinn á Akureyri hafði nýlokið við að ráða inn tíu nýja starfsmenn í hlutastörf þegar þrengri samkomutakmarkanir tóku gildi í marsmánuði. Um mánuði síðar eru takmarkanirnar enn þær sömu á veitingastöðum þar sem 20 mega koma saman í hverju sóttvarnahólfi. Þrátt fyrir það var ekki tekin ákvörðun um að segja hinu nýráðna starfsfólki upp störfum enda engin leið að vita hvenær allt fer af stað aftur.

„Eðlilega þá stoppar allt þegar þetta fer af stað og þá verður fólk vart um sig, það á ekki bara við þá sem eru að koma í bæinn heldur líka bæjarbúa, það hægir á öllu,“ segir Arinbjörn Þórarinsson, eigandi Greifans, um stöðuna á Akureyri.

Með ráðningunni var ætlunin að þjálfa starfsfólkið fyrir væntanlega sumartraffík. Þá hafði Arinbjörn einnig lofað fleira fólki vinnu á næstunni.

„Þetta er nauðsynlegt vegna þess að það er mikil veltuaukning á sumrin þannig að við þurfum alltaf fleiri starfsmenn. Við höfum notað þennan tíma til þess að þjálfa fólkið fyrir það. Núna eru ekki viðskiptavinir til þess að þjálfa upp fólkið svo það er erfitt að koma svona inn í sumarið,“ segir Arinbjörn.

Hefði viljað sjá harðari aðgerðir á landamærum

Arinbjörn segir að við þær aðstæður sem séu í þjóðfélaginu í dag sé fyrirsjáanleikinn enginn. Hann segist ánægður með skref ríkisstjórnarinnar í átt að harðari aðgerðum á landamærum en ganga hefði mátt lengra.

Arinbjörn Þórarinsson, eigandi Greifans.
Arinbjörn Þórarinsson, eigandi Greifans. Ljósmynd/Aðsend

Eins og fram hefur komið var frumvarp heilbrigðisráðherra samþykkt á Alþingi í morgun en með því er ráðherranum heimilt að skylda ferðamenn sem koma frá áhættusvæðum til dvalar á sóttkvíarhóteli. 

„Ég hefði viljað hafa þetta þannig að það væri ekkert ef í þessu, að allir þeir sem kæmu til landsins færu í fimm daga sóttkví á hóteli. Maður er alltaf hræddur um það að þetta bjóði upp á leka,“ segir Arinbjörn.

Borgar sig að halda fólki í vinnu

Greifinn hefur nýtt sér hlutabótaúrræði stjórnvalda en Arinbjörn segir að nú sé staðan ekki lengur sú.

 „Við vonuðumst til þess að það tæki stuttan tíma að koma böndum á þetta og við myndum þá frekar hafa fólk hér í vinnu því hlutabætur eru skertar tekjur fyrir starfsfólkið. Lykilfólk fær það vel greitt í þessum bransa að það missir tekjur á hlutabótaleiðinni. Okkur fannst við bara ekki geta boðið fólki lengur upp á það. En auðvitað fær þetta fólk sem var búið að ráða inn minna af vinnu en það hefði ella gert,“ segir Arinbjörn.

Spurður um sumarið segist hann bjartsýnn.  

„Sumarið í fyrra, í sex vikur, var náttúrulega frábært hér úti á landi. Sem betur fer vorum við búin að haga hlutum þannig að við vorum tilbúin með starfsfólk og það bjargaði sumrinu okkar. Þrátt fyrir að það væru takmarkanir og annað héldum við fólki í vinnu og við lærðum svolítið af þeirri reynslu, að það borgi sig að halda fólki í vinnu og borga þá aðeins með því því þegar kæmi að því að allt færi af stað aftur þá myndi það gerast með hvelli og það gerðist í fyrra.“

mbl.is