Bólusetja með 3.000 skömmtum af Moderna

Frá bólusetningu í Laugardalshöll á miðvikudag.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um þrjú þúsund skammtar af bóluefni Moderna verða veittir í Laugardalshöll í dag. Byrjað var að blanda bóluefnið klukkan 7 í morgun eins og venjan er og sprautun hófst klukkan 9.

„Það verður rólegur dagur í dag, ekki nema um 3.000 skammtar,” segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og bætir við að bólusetningunni ljúki um hádegisbilið.

Um helmingur þeirra sem mæta í dag eru á leið í sína aðra bólusetningu eftir að hafa fengið fyrri skammtinn fyrir fjórum vikum síðan. Hinn helmingurinn samanstendur af konum með undirliggjandi sjúkdóma en búið er að bólusetja alla karla með undirliggjandi sjúkdóma, að sögn Ragnheiðar Óskar.

Sprautað verður með Moderna í dag.
Sprautað verður með Moderna í dag. AFP

Pfizer á þriðjudaginn 

Á þriðjudaginn verður líklega bólusett með bóluefni Pfizer og  þá verður hugsanlega lokið við að bólusetja allar konur með undirliggjandi sjúkdóma. Einnig er reiknað með endurbólusetningum þann dag.

Hluti kennara var bólusettur á miðvikudaginn með bóluefni Janssen og gerir Ragnheiður ráð fyrir því að þeir verði áfram bólusettir með Janssen í þarnæstu viku, sem útlit er fyrir að verði stór vika í bólusetningum.

Eitthvað var um að kennarar veiktust eftir bólusetninguna og segir Ragnheiður viðbúið að ónæmiskerfið ræsi sig. Þá fái fólk flensulík einkenni. „Það er merki um að bóluefnið er gott og er að virka en þetta er tvíbent því auðvitað er ekki gott að starfsemi fellur niður en flestir verða vonandi hressir í dag,” greinir hún frá.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Næsta vika líklega róleg

Frekar lítið verður um bólusetningar í næstu viku en allt fer þetta eftir fjölda skammta sem koma hingað til lands. Yfirleitt er skammur fyrirvari fyrir teymið sem annast bóluefnið til að skipuleggja sig fyrir næstu viku því ekki er vitað um magn bóluefnis fyrr en í lok hverrar viku. „Eins og með öll Covid-verkefni er fyrirsjánaleiki af skornum skammti,” segir hún.

Allir skammtarnir sem dregnir voru upp í gær voru notaðir, eða 14 þúsund talsins. Til eru um 1.000 skammtar á lager af bóluefni AstraZeneca og verða þeir geymdir fyrir næsta Astra-dag sem hugsanlega verður í þarnæstu viku.

Frá bólusetningu í Höllinni í gær.
Frá bólusetningu í Höllinni í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bíða þar til eftir miðjan júní

Um 60% mæting var í bólusetninguna á höfuðborgarsvæðinu í gær. „Við vorum að boða svolítið villt og galið eftir hádegið. Þegar fólk hefur skamman tíma til að koma getur það haft áhrif á hlutfallið,” útskýrir Ragnheiður. Í gær var bólusett með AstraZeneca og segir hún að yfirleitt hafi verið sambærileg mæting í bólusetningu með því og öðrum bóluefnum.

Spurð út í þá sem mæta ekki í boðaða bólusetningu segir hún að þegar um árganga er að ræða hafi verið reynt að boða fólk tvisvar. Fólki sem ekki hefur fengið boð um að mæta en er úr árganginum, er velkomið að koma. Ef fólk kýs annað bóluefni eru líkur á því að það geti mætt í bólusetningu með bóluefni að eigin vali eftir miðjan júní, þegar nóg af bóluefni verður í boði. 

mbl.is