Ræddu þungunarrof og mikilvægi femínisks aktívisma

Frá pallborðsumræðum um þungunarrof og mikilvægi femínisks aktívisma í baráttunni …
Frá pallborðsumræðum um þungunarrof og mikilvægi femínisks aktívisma í baráttunni fyrir réttindum og frelsi kvenna til að fara í þungunarrof á landsfundi VG. Ljósmynd/Aðsend

Silja Bára Ómarsdóttir, doktor í stjórnmálafræði, segir að það sé mikilvægt að hafa femíniskan ráðherra við stjórnvölinn og vísaði til Svandísar Svavarsdóttur sem vann að betri lögum um þungunarrof og fékk þau í gegnum þingið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VG en rafrænn landsfundur Vinstrihreyfingarinnar -  græns framboðs er haldinn nú um helgina.

Pallborð um þungunarrof og femíniskan aktívisma í þremur löndum fór fram í dag. Viðmælendur voru þær Justyna Grosel, blaðamaður frá Póllandi og feminískur aktivisti, Kathy D’Arcy, ljóðskáld og aktívisti, frá Írlandi og Silja Bára Ómarsdóttir, doktor í stjórnmálafræði, stjórnandi pallborðsins var Fríða Rós Valdimarsdóttir.

Pallborðið fjallaði um þungunarrof og mikilvægi femínisks aktívisma í baráttunni fyrir réttindum og frelsi kvenna til að fara í þungunarrof. Á Íslandi gengu í gegn ný lög fyrir tveimur árum en í öðrum löndum hafa málin þróast í þveröfuga átt. Þó að Írland hafi gert mikilvægar breytingar á lögum með því að afglæpavæða fóstureyðingar þá er, samkvæmt Kathy, langt í land með að gera þungunarrof aðgengilegt fyrir allar konur. „Á Norður-Írland, er staðan mjög slæm, sérstaklega eftir Brexit. Við þurfum öll að taka þátt í baráttunni með konum í Norður-Írlandi. Þær þurfa á stuðningi okkar að halda," er haft eftir henni í fréttatilkynningu.

Justyna Grosal hefur búið hér á landi í 7 ár. Réttindi kvenna til þungunarrofs hafa verið tekin frá þeim og mikil andstaða gegn þungunarrofi hefur sett margar konur í afar hættulegar aðstæður. „Þungunarrofum fækkar ekki þótt þau verði gerð ólögleg en þau verða hættulegri fyrir konurnar,” er haft eftir henni varðandi stöðu mála í Póllandi. 

Í Póllandi hafa konur ekki setið auðum höndum á tímum Covid heldur hefur mikil barátta farið fram á netinu og hafa Pólverjar um allan heim tekið virkan þátt í þeirri baráttu. „Andstaðan gegn þungunarrofi er bara toppurinn á ísjakanum. það er mikið barist gegn hinsegin fólki til dæmis. Við eigum mjög langt í land í Póllandi til aukinna mannréttinda," segir hún í fréttatilkynningu.

mbl.is