Hlaupahjól slysaþemað þessa dagana

Mynd af rafmagnshlaupahjólum úr safni mbl.is.
Mynd af rafmagnshlaupahjólum úr safni mbl.is. mbl.is/Árni Sæberg

Hlaupahjól eru þemað þessa dagana segir varðstjóri í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þegar spurt er út í sjúkraflutninga. Hann bætir við og segir þetta ekki börn heldur fullorðið fólk. Í gærdag voru fjögur til fimm slík útköll og sami fjöldi í nótt. Um er að ræða fullorðið fólk sem leigir sér rafmagnshlaupahjól og verður síðan fyrir óhappi. Mjög algengt er að fólk lendi á andlitinu þegar það fellur af slíkum hjólum að sögn varðstjóra.

Alls voru sjúkraflutningarnir 100 talsins síðasta sólarhringinn en af þeim voru 36 forgangsflutningar og 10 vegna Covid-19.

Þrjú útköll voru á dælubíla, þar á meðal vegna elds í þaki. Í ljós kom að þar voru iðnaðarmenn að störfum en það kemur fyrir öðru hverju að slökkviliðið sé kallað til þar sem iðnaðarmenn eru að störfum. Í þessu tilfelli var verið að bræða dúk á þak og engin hætta á ferðum.

mbl.is