Glasið hálffullt og rúmlega það

Miðað er við íbúa Íslands, 16 ára og eldri, 1. …
Miðað er við íbúa Íslands, 16 ára og eldri, 1. janúar á þessu ári. Samtals 295.298 manns. Graf/covid.is

Alls hafa 62.276 einstaklingar verið bólusettir við kórónuveirunni að fullu á Íslandi, eða 21,1% allra þeirra íbúa landsins sem eru 16 ára eða eldri. Þar að auki hafa 82.499 einstaklingar fengið eina sprautu bóluefnis og eiga eftir að fá þá síðari, eða samtals 27,9% af sama mengi.

Það gera 49%, sem ýmist hafa verið bólusett að hálfu eða fullu, eins og mbl.is greindi frá í morgun. En þá er ekki öll sagan sögð.

Og það er vegna þess að 2,1% hópsins til viðbótar hafa þegar fengið sjúkdóminn, og/eða mælst með mótefni við veirunni í blóði sínu.

Ekki þarf mikla talnagleggni til að átta sig á að sú tala, þó lítil sé og ef til vill sem betur fer, nægir til að ýta fjölda þeirra sem annað hvort hafa sýkst eða fengið bóluefni yfir 50% markið, eða í 51,1%.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var bólusett í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var bólusett í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hillir undir lok tveggja metra reglunnar

Þegar horft er til afléttingaráætlunar stjórnvalda, sem kynnt var 27. apríl, má sjá að áætlað var að það yrði ekki fyrr en í seinni hluta maímánaðar sem 50% eða fleiri hefðu fengið að minnsta kosti eina bólusetningu. Sú tala stendur í 49% nú eins og áður sagði.

„Síðari hlutann í maí er gert ráð fyrir að am.k. 50% landsmanna hafi fengið bólusetningu og að bólusetning einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sé komin vel á veg,“ segir í tilkynningu stjórnarráðsins sem dagsett er 27. apríl.

Tekið var fram að þegar þetta markmið næðist, þá yrði unnt að rýmka fjöldatakmarkanir til muna, þ.e. að þau verði 100 til 1.000 manns. Samhliða verði nálægðarmörk færð úr tveimur metrum í einn.

Það hillir því undir lok tveggja metra reglunnar, samkvæmt áætlunum stjórnvalda.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í síðustu viku.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjötur um fót

Því gætu veitingamenn fagnað. Hrefna Sætran, eig­andi Fisk­markaðar­ins, Grill­markaðar­ins og Skúla Craft Bar, sagði þannig í samtali við Morgunblaðið á sunnudag að tveggja metra regl­an hefði verið þeim fjöt­ur um fót síðustu vik­ur. 

Benti hún á að þótt fleiri megi vera í hverju sótt­varna­hólfi þá skipti það ekki miklu máli fyr­ir smærri veit­ingastaði, þar sem tveggja metra regl­an sé enn í gildi.

„Við erum bjart­sýn á sum­arið og spennt fyr­ir frek­ari til­slök­un­um,“ sagði Hrefna.

Hrefna er spennt fyrir frekari tilslökunum.
Hrefna er spennt fyrir frekari tilslökunum. mbl.is/Sigurður Unnar

Ekki hafa allar áætlanir staðist

Rúmur mánuður er þar til komið er að þeim tíma sem síðasti liður afléttingaráætlunar lýtur að, þ.e. síðari hluta júní.

Gert er ráð fyrir að aflétta megi öllum takmörkunum innanlands á þeim tíma, en þá er gert ráð fyrir að búið verði að bólusetja um 75% landsmanna að minnsta kosti einu sinni.

Sá fyrirvari er gerður í tilkynningu stjórnarráðsins að forsendur afléttingaráætlunarinnar séu annars vegar fyrirliggjandi áætlanir um afhendingar bóluefna, ásamt markmiðum samninga um afhendingu, og hins vegar bólusetningaráætlun embættis landlæknis.

Þær hafa staðist til þessa og raunar gott betur en það. Það er, þessar áætlanir sem kynntar voru 27. apríl.

Í desember gerði heilbrigðisráðuneytið þannig ráð fyrir að bólusetja 75% landsmanna á fyrsta fjórðungi þessa árs. Síðan eru liðnir rúmir sex mánuðir, þar af einnig umræddur ársfjórðungur.

En nú er glasið hálffullt og rúmlega það.

mbl.is