Sinubruni við Kúludalsá

Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar fékk útkall á tíunda tímanum í kvöld eftir að kviknað hafði í sinu við Kúludalsá nærri Hvalfjarðargöngunum.

Slökkviliðið er enn að berjast við eldinn en allur mannskapur slökkviliðsins er á svæðinu.

Að sögn Jens Heiðars Ragnarssonar slökkviliðsstjóra er staðan á þessari stundu ágæt en hann bendir á að aðstæður séu fljótar að breytast. Þá er vindur lítill á svæðinu og aðstæður því viðráðanlegri en ella.

Ekki er vitað hver eldsupptökin eru en sökum þess hve þurrt er á svæðinu var eldurinn fljótur að breiðast út.

Engar skemmdir hafa orðið á munum en eldurinn er enn þá bundinn við gróðurlendi.

mbl.is