Augun beinast að Biden

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, mætir til leiks …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, mætir til leiks á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel. AFP

„Þetta er fyrsti leiðtogafundur Bidens [forseta Bandaríkjanna] hjá NATO. Það er líklega það sem athygli mun beinast að,“ segir Guðlaugur  Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í samtali við mbl.is skömmu áður en hann hélt á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. 

Nýr tónn í Bandaríkjamönnum

Hann segir skilaboð Joes Bidens hafa verið skýr um að sýna samstöðu, samvinnu og samtal við bandamenn sína í NATO. „Þessu hefur verið tekið mjög vel.“

Joe Biden, sem er í eins konar Evrópuferð, lauk nýverið við leiðtogafund G7-ríkjanna sem fór fram í Bretlandi. Guðlaugur segir að hann muni í framhaldi af leiðtogafundi NATO funda með mörgum þjóðarleiðtogum tvíhliða „og endar náttúrlega á fundi sem við eigum nokkuð í Íslendingar, það er að segja leiðtogafundur hans og Vladimírs Pútíns [forseta Rússlands] í Genf“.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. AFP

Fyrir leiðtogafundinum liggur tillaga Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, til leiðtoganna sem miðar að því að styrkja Atlantshafstengslin og efla pólitískt samstarf til að bandalagið verði enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir nútíðar og framtíðar. Þá verður ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lögð fyrir leiðtogana og ný netöryggisstefna.

Guðlaugur segir að verið sé að leggja áherslu á netöryggi. „Netöryggismál verða sífellt fyrirferðarmeiri. Það er mikil samstaða á meðal ríkja Atlantshafsbandalagsins um að taka á þeirri ógn og vinna saman að það.

Kína komið til að vera

Sömuleiðis eru menn líka farnir að ávarpa loftslagsmálin. Þau tengjast öryggis- og varnarmálum með beinum hætti, augljóslega,“ segir Guðlaugur Þór. 

Hann segir sömuleiðis að sú staðreynd að í annað sinn verði fjallað um málefni Kína á vettvangi leiðtogafundar NATO segi okkur að það sé komið til að vera. 

„Það er alveg ljóst að ekki er hægt að fjalla um stór málefni á alþjóðavettvangi, á borð við afvopnunarmál, án þess að taka Kína með í reikninginn. Þeir eru fyrirferðarmiklir og það mun ekki minnka,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is