Telja heppilegra að dreifa vörðunum

Ferðamenn á leið í hvalaskoðun á Húsavík. Þessmá vænta að …
Ferðamenn á leið í hvalaskoðun á Húsavík. Þessmá vænta að áfangastaðir fleiri landshluta en Suðurlands fái vörður síðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir fjórir áfangastaðir sem eru fyrstir til þess að fara í sérstakt ferli hjá hinu opinbera, þar sem ætlunin er m.a. að vekja athygli á þeim og bæta stefnumótun um stýringu þeirra, eru allir á suðurhluta landsins og eru allir nú þegar fjölsóttir. Lektor við Háskólann á Akureyri telur að betra væri að vekja athygli á lítt þekktari stöðum og segja þeir einstaklingar sem Morgunblaðið ræddi við í öðrum landshlutum en suðurhluta landsins að heppilegra væri að þeim stöðum þar sem eiga að verða vörður væri betur dreift um landið.

Um er að ræða verkefnið „Varða“, samstarfsverkefni á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Staðirnir sem valdir eru til þess að verða vörður verða m.a. markaðssettir til íslenskra og erlendra ferðamanna. Aðaltilgangurinn er þó ekki að markaðssetja áfangastaði heldur að bæta stefnumótun um stýringu og uppbyggingu á þekktum og fjölsóttum stöðum, samkvæmt skriflegu svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í svarinu segir að fleiri staðir verði valdir til þátttöku í verkefninu strax á næsta ári.

„Varðandi innviði á þessum stöðum sem stefna í átt að Vörðu er rétt að þeir hafa vissulega styrkst á síðastliðnum árum, eins og víða annars staðar. Enn vantar þó talsvert upp á að vel sé, einkum á Geysi og Jökulsárlóni. Varða hefur einnig það markmið að styrkja þætti sem núverandi úrræði, einkum Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða, ná ekki yfir.“

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, segir að áður en bakslag kom í ferðaþjónustuna, bæði með falli WOW air og kórónuveirufaraldrinum, hafi verið komnar upp áhyggjur af því að stærstu ferðamannastaðirnir væru orðnir óaðlaðandi vegna átroðnings og fjölda ferðamanna. Nú, þegar ferðaþjónustan er að rétta úr kútnum að nýju, segir Jón að „dauðafæri“ sé á því að fara ekki beint ofan í sama farið.

„Til dæmis með því að markaðssetja fleiri staði á landinu og ná meiri dreifingu.“

Þeir staðir sem komnir eru í ferli til þess að verða vörður eru Þingvallaþjóðgarður, Geysir, Gullfoss og Jökulsárlón.

Margrét Björk Björnsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands, segir að það hafi komið á óvart þegar kynnt var í vor að umræddir staðir ættu að verða vörður.

„Þetta kom bara beint úr ráðuneytinu og maður hefði kannski vænst þess að það hefði verið meira samráð úti um allt land,“ segir Margrét.

„Ég get ekki sagt að við höfum hrópað húrra yfir þessu en ég skildi líka þau rök sem ráðuneytið lagði fram, að þetta væru staðir sem væri mestur ágangur á og þyrfti að leggja mesta áherslu á núna að koma í sæmilegt horf.“

Margrét segir þó að útlit sé fyrir umbætur en markaðsstofur landshlutanna hafa fengið erindi frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem beðið er um að þær tilnefni vörður í sínum landshlutum. „Verkefnið er flott og ég held að það geti skapað aðdráttarafl,“ segir Margrét.

Ingvi Örn Þorsteinsson, hjá Austurbrú, segir að ákjósanlegt sé að fyrstu vörðurnar verði dreifðar um landið. „Við myndum vilja sjá að þetta dreifðist um allt landið,“ segir Ingvi.

Ásthildur Sturludóttir, bæjastjóri Akureyrarbæjar, segist fagna aðferðafræðinni sem lagt er upp með.

„Þetta er mjög flott verkefni en við hefðum að sjálfsögðu viljað sjá verkefni hér á Norðurlandi. Ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði í næsta áfanga. Við á Norðurlandi erum með fullt af áfangastöðum sem koma til greina.“

Ferðamálaráðherra hefur boðið öllum landshlutum að hefja þá vegferð að verða vörður. Haldin verður vinnustofa strax í haust í þeim tilgangi. Í skriflegu svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að staðirnir fjórir hafi verið valdir til þess að verða vörður „vegna þess að þeir eru á meðal fjölsóttustu áfangastaða landsins og þar af leiðandi í einna mestri þörf fyrir þá stefnumótun um stýringu og uppbyggingu sem felst í Vörðu. Einnig hafði áhrif að þeir eru allir í ríkiseigu sem einfaldar að ná öllum hagsmunaaðilum saman um verkefnið.“

Kom ekki til greina að dreifa þessu meira um landið strax til að byrja með?

„Frá upphafi hefur staðið til að það verði vörður í öllum landshlutum. Þessir fjórir staðir voru taldir í mestri þörf fyrir verkefnið, vegna þess hve þeir eru fjölsóttir. Ekki er þó víst að þeir verði fjórar fyrstu vörðurnar, því þeir eiga misjafnlega langt í land.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »