Ætlaði að hitta eiginkonuna en villtist

Þoka var á svæðinu sem varð til þess að maðurinn …
Þoka var á svæðinu sem varð til þess að maðurinn missti áttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamaðurinn sem leitað var að síðan klukkan þrjú í gær hafði ákveðið að hitta eiginkonu sína skammt frá gossvæðinu. Fór hún á undan en þegar kom að því að ganga til baka gekk maðurinn til norðausturs í stað suðurs, svo hann villtist af leið.

Þetta segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg. Þoka var á svæðinu og er alls ekki óalgengt að fólk villist við þær aðstæður að sögn Jónasar.

Maðurinn er vel á sig kominn og í góðu formi, svo ekki virðist sem honum hafi verið meint af þrátt fyrir að hafa verið einn síns liðs í náttúrunni í rúman sólarhring. Verður þó flogið með hann á Landspítalann í Fossvogi með þyrlu Landhelgisgæslunnar þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun.

Fær hrós í kladdann fyrir að ganga ekki langt 

„Hann greinilega gekk ekki allan tímann sem auðveldaði okkur málin, því lengra sem hann labbar því stærra er leitarsvæðið. Hann má fá hrós í kladdann fyrir að hafa ekki verið stanslaust á gangi á svæðinu og gert okkur auðveldara fyrir,“ segir Jónas.

Maðurinn hafði þó skilið símann sinn eftir inni í bíl, sem gerði það að verkum að hann gat ekki látið vita af sér. Jónas mælir með því að fólk hafi símann ávallt á sér þegar gengið er á fjöll eða lagt er af stað í ferðalög í náttúrunni.

„Sem betur fer fór allt vel. Við fundum hann og hann getur haldið áfram sínu ferðalagi um Ísland reynslunni ríkari. Ég reikna með því að konan hans verði líka himinlifandi að sjá hann,“ segir Jónas að endingu.

mbl.is