Rýmingu aflétt að hluta

Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru …
Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru rýmd. Ljósmynd/Lögreglan

Á fundi almannavarnanefndar Skagafjarðar sem hófst kl. 17:30 var tekin ákvörðun um afléttingu rýminga á húsum við Norðurbrún 5, 9 og 11 og við Laugaveg 13 og 21, frá og með kl. 21 í kvöld. Rýming er óbreytt fyrir Norðurbrún 7, Laugaveg 15 og 17 og Laugahlíð.

Unnið hefur verið á vettvangi í dag við rannsóknir á orsökum aurskriðunnar og aðgerðum til að fyrirbyggja frekara tjón. Með aðgerðum dagsins hefur tekist að þrengja hættusvæðið, að því er fram kemur í færslu sem lögreglan á Norðurlandi vestra birti á Facebook.

Vinnu við frekari rannsóknir, hreinsun og uppbyggingu verður haldið áfram næstu daga. Jafnframt tók almannavarnanefnd ákvörðun um að aflétta lokun á skíðasvæðinu í Tindastóli frá og með kl. 21 í kvöld þar sem ekki er talin hætta á frekari skriðuföllum á svæðinu.

Almannavarnanefnd ítrekar beiðni til almennings um að virða lokanir þar sem þær eru í gildi. Almannavarnanefnd mun funda kl. 16 á morgun og tilkynna um frekari ákvarðanir í kjölfar þess fundar, að því er segir í færslunni

mbl.is