Skora á þjóðhátíðarnefnd að endurskoða ekki valið

Ingólfur Þórarinsson.
Ingólfur Þórarinsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tæplega 400 manns hafa skrifað undir undirskriftasöfnun þar sem þjóðhátíðarnefnd ÍBV er hvött til þess að endurskoða ekki ákvörðun sína um að afbóka tónlistarmanninn Ingólf Þórarinsson, sem er betur þekktur sem Ingó veðurguð. 

Í gær hrinti Tryggvi Sæmundsson, ritstjóri Eyjar.net, af stað undirskriftasöfnun til stuðnings Ingó. Þar er þess krafist að þjóðhátíðarnefnd ÍBV endurskoði ákvörðun sína um að afbóka Ingó. Það vilja þeir sem skrifa undir nýju söfnunina greinilega koma í veg fyrir. 

Forsaga málsins er sú að Ingó var fenginn til þess að stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð. Í kjölfar fréttaflutnings af því stigu 130 konur fram og mótmæltu þeirri tilhögun. Stuttu seinna birtust frásagnir af kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi „þjóðþekkts tónlistarmanns“ á TikTok-miðli aðgerðasinnahópsins Öfga. Ingó var ekki nafngreindur í sögunum en hefur síðan verið tengdur við þær og sagst ætla að leita réttar síns. 

Telja ekki um mannréttindabrot að ræða

Þjóðhátíðarnefnd ákvað síðan á mánudag að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum í ár.

Við nýjustu undirskriftasöfnunina er skrifað:

„Við undirrituð skorum á þjóðhátíðarnefnd ÍBV að endurskoða EKKI ákvörðun sína um að afbóka Ingólf Þ. á Þjóðhátíð 2021. Það er afar viðunandi niðurstaða og ósköp eðlileg viðbrögð.

Það er eðlilegt að þjóðhátíðarnefnd ákveði hverjum skal bjóða að koma fram á Þjóðhátíð og nefndinni ber ekki að leyfa vafasömum mönnum að koma þar fram. Þó engin kæra liggi fyrir er EKKI brotið á mannréttindum Ingólfs að afbóka hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert