„Þessu gosi er ekki lokið“

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Einar Falur

Glóð sást í gígnum í Geldingadölum um miðnætti í gærkvöldi eftir u.þ.b. tveggja sólarhringa hlé á óróa í eldgosinu. 

Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að vel sé fylgst með óróanum í gosinu, en frá 28. júní hefur gosóróinn rokkað upp og niður. 

„Það fór að sjást í glóð í gígnum og það var fram eftir nóttu. Svo breyttist óróinn enn þá aftur og við hættum að sjá þessa glóð en núna er þoka á svæðinu og ómögulegt að sjá eitthvað,“ segir Sigþrúður. 

Hún segir líklegt að þegar hraun flæði ekki úr gígnum fari það eftir rásum undir eldra hrauni á svæðinu. 

„Málið er að þessu gosi er ekki lokið og það eru líkur á því að það sé að renna undir gamla hrauninu og stundum nær það að sulla aðeins uppi. Mér finnst það líklegt því þessi glóð kemur alltaf annað slagið,“ segir Sigþrúður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert