Hámarki atvinnuleysis náð

Hagfræðideild Landsbankans telur ástæðu til bjartsýnis þar sem að þróunin …
Hagfræðideild Landsbankans telur ástæðu til bjartsýnis þar sem að þróunin verður að öllum líkindum áfram niður á við varðandi atvinnuleysi í kórónukreppunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnuleysi hefur minnkað sex mánuði í röð og er orðið nokkuð ljóst að hámarki atvinnuleysis hefur verið náð. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans. Heildaratvinnuleysi í júní var 7,4% samanborið við 10,0% í maí og minnkaði þannig um 2,6 prósentustig milli mánaða. Í júní 2020 var almennt atvinnuleysi 7,5% og það hefur því minnkað um 0,1 prósentustig á einu ári. 

Atvinnuleysið var hins vegar um 5% í upphafi ársins 2020 og því enn dálítið í land þar til atvinnuleysisstig verði svipað og þá. 

Í nýlegri skýrslu OECD um Íslands kemur það sjónarmið fram að atvinnuleysi hafi ekki bitnað sérstaklega illa á einstökum hópum. Þannig hafi atvinnuleysi karla og kvenna verið svipað í gegnum kreppuna og atvinnuleysi ungs fólks þróast með svipuðum hætti og atvinnuleysi almennt. Líklegt er að aukin skólaganga hafi dregið eitthvað úr atvinnuleysi yngri aldurshópa. 

Hagfræðideild Landsbankans telur ástæðu til bjartsýni þar sem að þróunin verður að öllum líkindum áfram niður á við varðandi atvinnuleysi í þessari kreppu. Árangur í bólusetningum er farinn að koma í ljós og nú er mikið horft til baráttunnar við faraldurinn í helstu viðskiptalöndum okkar sem hefur óneitanlega töluverð áhrif á þróun atvinnuleysis hér á landi.

mbl.is