„Viljum ekki sjá málum háttað á þessum grundvelli“

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er að ákveðnu leyti endurspeglun á hvernig kerfið er vanmáttugt í að takast á við mál af þessu tagi og koma til móts við þolendur,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, varðandi umræðuna í samfélaginu um metoo-byltinguna og ásakanir um kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum.

„Þetta er auðvitað flókið og viðkvæmt mál. Þessi upplifun einstaklinganna virðist að ákveðnu leyti vera uppsöfnuð og fara mörg ár aftur í tímann. Því veltir maður fyrir sér af hverju þetta hefur ekki komið fyrr upp á yfirborðið og af hverju kemur þetta fram núna með þessum sprengikrafti?“ segir Helgi og nefnir að fyrir venjulega borgara í samfélaginu sé mjög erfitt að henda reiður á þessum ásökunum þegar maður horfir á málið utan frá.

„Það er ekki nokkur leið fyrir okkur að segja til um hvað sé í sjálfu sér þarna á ferðinni. Þetta er eitthvað sem gerist á milli tveggja einstaklinga fyrst og fremst. Öllu grautað saman í umræðunni, sumt alvarleg brot, en annað mögulega frekar ámælisvert eða siðferðislega rangt og er óþægileg lífsreynsla sem fólk er ekki endilega að kæra,“ segir Helgi og nefnir í því samhengi alla umræðuna um hvernig réttarkerfið sé í stakk búið til að takast á við slík mál.

Nýr farvegur í kjölfar metoo

„Staðan er nú þannig að margir vilja frekar bíta á jaxlinn og láta þetta yfir sig ganga en að stíga fram í réttarkerfinu. Þessir þolendur hafa því fundið annan farveg sem er hluti af þessari samskiptabylgju, metoo, þar sem þeir geta tjáð sína reynslu sem þeir töldu sig ekki geta gert áður, en þá var kannski enginn vettvangur til þess,“ segir Helgi og bætir við að þolendur upplifi réttarkerfið vanmáttugt til að taka á reynslu þeirra.

„Að sumu leyti er því kominn nýr farvegur til þess að stíga fram í kjölfar metoo. Við viljum aftur á móti ekki sjá málum háttað á þessum grundvelli sem er að blasa við okkur núna, þetta er ekki réttarríkið sem við sjáum fyrir okkur í siðuðu samfélagi. Að hópur einstaklinga taki sig saman gegn einum nafngreindum einstaklingi með aðstoð samfélagsmiðla þar sem aðeins önnur hliðin kemur fram og ekki er unnt að svara fyrir ásakanirnar. Við viljum að þegar mál af þessu tagi koma upp  séu þau uppi á yfirborðinu og jafnræðis gætt. Maður skilur þolendur samt mjög vel því þeir virðast ekki sjá annan farveg til að lýsa reynslu sinni. Þetta segir okkur til um það hvernig ferli mála af þessu tagi er háttað í samfélaginu,“ segir Helgi og nefnir að það vanti viðunandi farveg fyrir þolendur til þess að leita réttar síns.

„Það er eitthvað að í meðferð mála af þessu tagi og því þurfum við að líta í eigin barm hvað það snertir. Þessi staða núna lýsir ákveðnu varnar- og máttleysi. Margir sitja inni með einhverja óþægilega reynslu sem þeir hafa ekki getað fundið farveg til þess að koma á framfæri fyrr en núna,“ segir Helgi og telur mikilvægt að koma til móts við þolendur af ýmsu tagi vegna samskipta kynjanna og annars slíks.

Vantar millistig

„Þarna er einhver reynsla sem æpir á mann að ekki sé hægt að vinna úr í gegnum réttarkerfið, einkum vægari kynferðisbrot. Réttarríkið er byggt á ákveðnum meginreglum sem kemur svo í ljós að er mjög þröngt nálarauga fyrir reynslu einstaklinga af þessu tagi þar sem til að mynda tveir aðilar eigast við með ólíka upplifun. Því veltir maður fyrir sér hvort það vanti ekki eitthvert millistig, ákveðna sáttamiðlun eða borgarlegt úrræði, sem hægt er að leita til án þess að fara beinlínis inn í þetta hefðbundna réttarkerfi til þess að leita sátta,“ segir Helgi og nefnir að einnig vanti úrræði til stuðnings gerendum, sem í flestum tilfellum eru karlmenn, í sambandi við samskipti og annað slíkt. Helgi nefnir sem dæmi úrræði sem hafa sprottið upp í sambandi við heimilisofbeldi eða ofbeldi nákominna, þar hafi orðið mjög jákvæð þróun úrræða.

Helgi hefur síðastliðin fimm ár unnið að rannsókn um þolendur netglæpa ásamt Jónasi Orra Jónassyni félagsfræðing. Spurningalisti var sendur til þýðis á tveggja ára fresti, 2016, 2018 og 2020 um upplifun svarenda af áreitni á netinu. Helgi nefnir að fyrsti listinn hafi verið sendur fyrir metoo-byltinguna og markverðasta breytingin hafi verið reynsla kvenna eftir byltinguna. „Það eru mun fleiri konur sem stíga fram 2018 og 2020 og segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á netinu en 2016. Við erum að tala um sirka tvöföldun á þeim sem greina frá reynslu af áreitni af ýmsu tagi,“ segir Helgi og segist velta fyrir sér hvers vegna þessi aukning er svona mikil. Annaðhvort sé fjölgun brota eða að konur séu loks að stíga fram nú þegar farvegur er kominn.

Mikilvægt að gæta jafnræðis

Helgi nefnir dóm í máli kvenna í Svíþjóð sem stigu fram með ásakanir gegn nafngreindum einstaklingi. Konurnar voru dæmdar í maí fyrir meiðyrði gegn einstaklingnum en í dómnum segir að konurnar hafi rétt á sinni reynslu en ekki að nafngreina einstakling opinberlega.

Helgi nefnir að lokum að það sé mikilvægt að gæta jafnræðis allra sem koma að málinu. „Að sjálfsögðu á fólk að stíga fram með slæma reynslu sem það hefur en það hlýtur að vera betri farvegur en að taka þann sem er ásakaður af lífi á samfélagsmiðlum án þess að viðkomandi fái rönd við reist. Svo er mikilvægt fyrir okkur að líta í eigin barm, hefur ekki eitthvað brugðist hjá okkur í samfélaginu gagnvart málum af þessu tagi. Þetta hlýtur að segja okkur að við þurfum að gera enn betur, ekki bara varðandi málsmeðferðina sjálfa, heldur ekki síður varðandi samskipti kynjanna og eitraða karlmennsku sem enn virðist því miður gæta í of ríkum mæli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert