Neysla Íslendinga meiri en fyrir faraldurinn

mbl.is/​Hari

Seðlabanki Íslands birti nýverið gögn um veltu innlendra greiðslukorta í júní. Samanlagt jókst kortavelta um 8% milli ára í júní miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 84 milljörðum króna og jókst um 3% milli ára. 

Kortavelta Íslendinga erlendis nam 12,4 milljörðum króna og jókst um 64% milli ára að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Sé miðað við kortaveltu í júní 2019, þegar allt lék í lyndi og engan grunaði að brátt átti faraldur eftir að dynja á heimsbyggðinni, mælist aukningin 9% að raunvirði. Innanlands mælist aukningin 20% miðað við fast verðlag, en samdráttur erlendis er upp á 33% miðað við fast gengi. 

Samkvæmt Hagsjánni hefur kortavelta verið ágætis vísbending um þróun einkaneyslunnar og á öðrum ársfjórðungi jókst kortaveltan alls um tæp 15% milli ára sem er nokkuð kröftugur viðsnúningur miðað við þann samdrátt sem mældist í fyrra. Gera má ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu hafi því einnig verið talsverður á fjórðungnum, en þær upplýsingar eiga eftir að berast frá Hagstofnunni síðar í sumar. 

mbl.is