Einangrunarpláss brátt uppurin

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, í hlífðarfatnaði.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, í hlífðarfatnaði. mbl.is/Ásdís

Atvinnumiðlanir sem flytja fólk til landsins í því skyni að það geti starfað hér vísa gjarnan fólki sínu umsvifalaust í dvöl á sóttkvíarhótelum við komuna til landsins. Húsnæðisaðstæður fólksins hér eru oftar en ekki þannig að þar sé heppilegt að sæta þeirri fimm daga sóttkví sem óbólusettir þurfa að sæta við komuna til landsins.

Þetta bætist ofan á vanda sóttkvíarhótelanna hvað varðar fjölda óbólusettra erlendra ferðamanna sem þar dvelja í sinni fimm daga sóttkví, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, forstöðumanns farsóttarhúsa. Staðan þar er orðin býsna þröng.

„Við erum með yfir 200 manns núna í einangrun. Við búumst við því að eftir tvo til þrjá daga verði einangrunarplássin hjá okkur uppurin,“ segir Gylfi.

Með plan B og C

Spurður hvort opna eigi fleiri farsóttarhús segir Gylfi að hann sé alltaf með nokkur plön tiltæk.

„Við erum alltaf með plan B og C fyrir það sem getur gerst. Við sjáum vonandi fram á að óbólusettum ferðamönnum fari fækkandi. Þeim hefur verið að fækka svolítið á undanförnum dögum og vikum en það eru þó um 150 ferðamenn hjá okkur núna og það munar að sjálfsögðu um þau herbergi, bæði í utanumhaldi og öðru,“ segir Gylfi. 

„Það er ekki auðvelt að ráða starfsfólk, síst fyrir okkur þar sem um mjög tímabundið starf er að ræða, sérstaklega um mitt sumar þegar skólar eru að byrja og annað. Við vonumst til þess að við getum ráðið við þetta, en það er aðeins að stríða okkur að við erum enn að fá þetta marga ferðamenn til okkar sem geta í raun verið á hvaða hóteli sem er, sem er tilbúið að taka við þeim.“

mbl.is