Engin Þjóðhátíð en nóg við að vera í Eyjum

Besta útsýnið í Eyjum.
Besta útsýnið í Eyjum. Ljósmynd/Óskar

Þrátt fyrir að Þjóðhátíð fari ekki fram þessa helgina í Vestmannaeyjum hefur verið mikið líf á eyjunni í dag. Töluvert hefur borið á því að gestir og gangandi jafnt sem heimamenn hafi gert sér ferð inn í Herjólfsdal og skoðað sig um.

Þá hafa aðrir gert sér ferð upp á Dalfjall og virt fyrir sér útsýnið, sem teljast verður býsna gott. Flestir ganga síðan eftir Eggjunum í austurátt og síðan aftur niður í Herjólfsdal.

Mikill erill er þá í verslunum bæjarins hvort sem um ræðir stærri kjörbúðir s.s. Bónus eða Krónuna, eða þá minni verslanir. Mikið af fólki er á sveimi í bænum og margir komið við á veitingastöðum og fengið sér hressingu, í föstu sem og fljótandi formi.

Brekkusöngurinn heima í stofu

Búið er að girða af svæðið í Herjólfsdal þar sem Þjóðhátíð fer fram ár hvert. Engum er hleypt inn á svæðið í kvöld, né annað kvöld. Þá verður brekkusöngnum streymt í beinni, þó verður að kaupa aðgang að streyminu hugnist fólki að fá þjóðhátíðarstemninguna heim í stofu. Nálgast má miða á tix.is.

Þá hefur lögreglan í Vestmannaeyjum verið með umferðareftirlit og stöðvað bíla og athugað hvort allt sé með felldu. Gert er ráð fyrir því að margir stefni á að hittast í hústjöldum, sem búið er að koma upp í görðum víða í bænum, og skemmta sér saman þegar líða tekur á kvöldið.

Herjólfsdalur, heimavöllur Þjóðhátíðar, í allri sinni dýrð.
Herjólfsdalur, heimavöllur Þjóðhátíðar, í allri sinni dýrð. Ljósmynd/Óskar
Brennan bíður betri tíma.
Brennan bíður betri tíma. Ljósmynd/Óskar
Fengið sér hressingu.
Fengið sér hressingu. Ljósmynd/Óskar
Nóg er af fólki í Vestmannaeyjum.
Nóg er af fólki í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Óskar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert