Tekur undir með Baudenbacher en fagnar nálgun Páls

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að óeðlilegt hafi verið að Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, hafi tekið að sér skýrslugerð um lögmæti sóttvarnaaðgerða á Íslandi. 

Þannig tekur Jón Steinar undir gagnrýni Carls Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem skrifaði harðorða grein í Morgunblaðið, þar sem hann sagði Pál hafa misst sjálfstæði sitt sem forseti dómstólsins.

Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins.
Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Steinar tekur þó ekki undir með Baudenbacher að öllu leyti, eins og hann útskýrir fyrir mbl.is. Hann segist sjálfur vera alfarið á móti því að alþjóðlegir dómstólar, eins og EFTA-dómstólinn, grafi undan fullvalda dómstólum aðildarríkja með því sem kallað er „lifandi lögskýringum“.

Þannig segir Jón að hann sé hlynntur þeirri nálgun Páls, að fara varlega í minnka vægi þess lýðræðislega lögmætis og umboðs sem íslenskir dómstólar hafa. Sú nálgun sé e.t.v. önnur en nálgun Baudenbachers, sem hann beitti í forsetatíð sinni.

Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins.
Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér sýnist það að hinn ágæti Páll Hreinsson, sem mun vera forseti EFTA-dómstólsins, hafi verið tregur til þess að taka fram fyrir hendurnar á íslenskum dómstólum, eða dómstólum aðildarríkjanna – og ef hann er það, þá fagna ég því.

„Að því marki sem þetta er varfærni við að taka dóma milliríkjadómstóls, sem mörg ríki eiga aðild að, fram yfir landréttardómana þá er ég mjög hlynntur því. Carl Baudenbacher, þessi sem skrifar greinina, hann er ábyggilega hinn mætasti lögfræðingur, en ég held að hann hafi verið, ef ég man rétt, forseti þessa dómstóls og ég held að hann hafi verið mjög glaðbeittur í því að beita dómsvaldi þar ytra á dómsniðurstöður aðildarríkjanna, sem ég held að það hafi ekki alltaf verið lögfræði sem uppfyllti þær kröfur sem við gerum í lýðræðisríkjum um lagasetningar og starfsemi dómstóla.“

„Lifandi lögskýringar“

Jóni er umhugað um sjálfstæði íslenskra dómstóla, eins og hann segir við mbl.is og raunar kunnugt er, og því segist hann ekki vilja skipa sér í fylkingar, með eða á móti Baudenbacher eða Páli. Hann segist fyrst og fremst vera stuðningsmaður laga og réttar.

„Við Íslendingar erum fullvalda þjóð, það eru líka aðrar þjóðir sem eiga aðild að þessu samstarfi um EFTA-dómstólinn. Til fullveldis íslensku þjóðarinnar heyrir það að mínu mati að dómsvaldið er íslenskt. Íslenskir dómstólar dæma eftir íslenskum lögum, og það getur alveg verið í lagi að við séum búin að gera milliríkjasamning um það að fá álitsgerðir frá þessum EFTA-dómstóli, sem getur gefið vísbendingar um hvernig réttarástand sé í öðrum löndum á þeim málasviðum sem verið er að fjalla um fyrir íslenskum dómstólum, en ég er mjög harður á þeirri skoðun að það verði að fara mjög varlega í það að viðurkenna dómsvald einhvers alþjóðlegs dómstóls, sem ekkert lýðræðislegt umboð hefur til þess að kveða upp dóma í íslenskum málum.“

„Það er meira að segja þannig að þessi dómstóll, og fleiri slíkir, hafa tekið sér fyrir hendur að beita því sem þeir kalla lifandi lögskýringar. Og hvað er það? Það er að búa til nýjar reglur, sem ekki verða raktar til lýðræðislegrar ákvörðunar innan þeirra ríkja sem hlut eiga að máli. Við rekum hérna lýðræði, sem þýðir að það er lýðræðislega kjörinn löggjafi, sem setur lög á Íslandi. Og það er enginn dómstóll í Evrópu sem hefur vald til þess að breyta þeim lögum eftir einhverjum lifandi lögskýringum eins og það er kallað.“

Skýrslugerð Páls fyrir íslenska ríkið „óeðlileg“

Eins og fyrr segir er Jón Steinar þó fullur efasemda í garð þess að Páll Hreinsson hafi tekið að sér skýrslugerð fyrir hönd íslenska ríkisins. Páll hefur þurft leyfi annarra aðildarríkja EFTA-dómstólsins til þess að taka að sér utanaðkomandi verkefni, eins og skýrslugerð fyrir íslenska ríkið. 

Skýrslan sem Páll vann að beiðni forsætisráðherra, sneri að valdheimildum sóttvarnalæknis, og þar með heilbrigðisráðherra, til opinberra sóttvarnaráðstafana. Sú skýrsla var síðar, seint í fyrra, lögð til grundvallar vinnu starfshóps heilbrigðisráðherra, sem vinna átti að því að endurskoða og leggja fram drög að breytingu á sóttvarnalögum. 

„Það er athugavert að Páll Hreinsson, verandi forseti í þessum dómstól, skuli taka að sér verkefni fyrir íslenska ríkið. Vegna þess að þar geta verið álitamál sem þarf að leita álits hjá dómstólnum og það sér það hver maður að hann á ekki að blanda sér í slíkt. Þannig ég tek undir með þeirri gagnrýni hjá Baudenbacher.“

mbl.is hefur reynt að ná tali af Páli, þá bæði til þess að leita viðbragða við skrifum Carls Baudenbacher og til þess að ganga úr skugga um að Páll hafi fengið leyfi annarra aðildarríkja EFTA-dómstólsins til þess að taka að sér skýrslugerð fyrir íslenska ríkið. Tilraunir mbl.is hafa enn engan árangur borið.

Þá hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ekki enn svarað símtölum blaðamanna mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina