Bólusetningar barna gengið vonum framar

Bólusetning barna á landinu hófst í síðustu viku.
Bólusetning barna á landinu hófst í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetning barna 12 til 15 ára er hafin víðvegar um land og sammælast hjúkrunarforstjórar nokkurra heilbrigðisstofnanna sem mbl.is náði tali af að bólusetning hafi gengið vonum framar.

Á Suðurlandi fengu börn í Árnes- og Rangárvallasýslu bólusetningu í Félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi í dag og að sögn Baldvinu Ýrar Hafsteinsdóttur, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hefur gengið mjög vel framan af degi.

„Við áttum alveg eins von á að það yrði dræm mæting en það hefur bara gengið vel,“ segir Baldvina og nefnir að einnig var bólusett á Höfn og í Vestmannaeyjum í dag. Á næstu dögum verður svo farið í örvunarbólusetningu á þeim sem eru eldri.

Yfir 80% þátttaka á Austurlandi

Á Austurlandi var hafist handa í síðustu viku að bólusetja börnin. „Það hefur gengið ótrúlega vel að bólusetja og mikill áhugi foreldra á að börnin séu bólusett,“ segir Jónína Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Austurlands, og nefnir að börnin hafi einnig mikinn áhuga á að fá bólusetningu.

„Í síðustu viku náðum við að sprauta um 71% barna sem eru 12 til 15 ára og í dag bættust við nærri 100 börn. Ég hugsa því að við séum komin vel yfir 80% þátttöku,“ segir Jónína.

„Bólusetningin hefur gengið miklu betur en við þorðum að vona. Oft myndast ákveðin hystería þegar verið er að bólusetja börnin. Við erum bara ofboðslega ánægð með þá sem eru að koma. Ekki nein vandræði og engar aukaverkanir, ekki einu sinni yfirlið.“

Þá kláraði Heilbrigðisstofnunin á Austurlandi einnig að gefa örvunarskammta á öll hjúkrunarheimili í dag. Í næstu viku verða síðan týndir til þeir sem eru eldri en 70 ára og hafa fengið bólusetningu fyrir meira en sex mánuðum síðan. „Við eigum nóg af bóluefni og það hefur verið góð mæting,“ segir Jónína.

„Alltaf nóg að gera“

Á Norðurlandi fer bólusetning fram á sjö starfsstöðum í dag og á morgun. Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, segir að bólusetning í dag og nefnir að á Dalvík hafi verið 80% mæting.

Þá er einnig verið að bólusetja íbúa á hjúkrunarheimilum í þessari viku á Norðurlandi. „Í framhaldinu munum við svo bólusetja þá sem eru 80 ára og eldri og fengu síðast bólusetningu fyrir 26 vikum. Eftir það eru þeir sem eru 60 ára og eldri. Það er alltaf nóg að gera,“ segir Guðný.

Í dag voru einnig bólusett börn á Vesturlandi en bólusetning fór fram á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Í næstu viku hefst síðan bólusetning barna á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum en bólusett verður í Laugardalshöll og í matsal Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði. Skipulag á bólusetningu barna á Suðurnesjum mun liggja fyrir í lok vikunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert