„Ég er bara þakklátur Hjálpræðishernum“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að endurbætur á húsnæði Fossvogsskóla séu í þeim farvegi sem ákveðinn var í vor.  Einnig segist hann hafa góð orð fyrir því að færanlegu kennslurýmin verði komin á sinn stað innan skamms.

„Hönnun úrbótanna á Fossvogsskóla hefur undið fram og ég á von á því eftir einhverjar vikur að fá inn tillögur í borgarráð um það hvernig staðið verði að útboðinu.“

Stóra verkefnið á áætlun

Dagur bendir á að það þurfi að fullhanna endurbætur áður en þær eru boðnar út. Sú vinna hafi verið í gangi í sumar  og á sama tíma hafi asbest sem fannst í gluggakistum hússins, verið fjarlægt.

„Þegar asbest er fjarlægt má ekkert fólk eða framkvæmdir vera í húsinu svo það má segja að tíminn hafi verið nýttur í fjarlægingu asbestsins og því er nú lokið.“

Dagur kveðst ekki fá betur heyrt en að stóra verkefnið sé á áætlun þó fullhönnun sé ekki lokið. „Ég á von á því að það liggi fyrir á næstu vikum.“

Munu samþykkja þó það komi athugasemdir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs talaði um að það hafi komið borgarstjórn á óvart hve mikið það kom foreldrum á óvart að upp gæti komið millibilsástand líkt og nú ríkir, áður en færanlegu kennslurýmin yrðu tekin í gagnið.

Dagur segir að það hafi legið fyrir að grenndarkynning yrði að fara fram áður en hægt væri að hefja skólastarf í færanlegum kennslustofum.

„Það var reynt að fara styttri leið með því að senda bréf á þá sem búa næst skólanum.“ Aðeins hafi fengist svör frá níu af tuttugu og einum íbúa og því var ekki hægt að falla frá grenndarkynningunni.

„Ef það koma athugasemdir við þetta í grenndarkynningunni á ég ekki von á öðru en að við munum samþykkja að stofurnar verði þarna samt. Athugasemdir myndu þýða að málið þyrfti að fara fyrir skipulags- og samgönguráð sem bætir nokkrum dögum við ferlið.“

Sýnir metnað að koma til móts við foreldra

Í tillögum sem borgarráð samþykkti kom fram að varaskeifan væri að allir nemendur Fossvogsskóla myndu hefja skólastarf sitt í Korpuskóla uns færanleg kennslurými lægju fyrir, að sögn Dags.

„Til að gæta sanngirni tel ég að það hafi sýnt metnað til að koma til móts við raddir foreldra, að reyna að finna annað húsnæði fyrir þennan hóp í  grenndinni, í stað þess að allir byrjuðu í Grafarvogi.“

Kom til skoðunar að yngstu börnin myndu hefja skólagöngu sína í Víkingsheimilinu.

„Það húsnæði mæltist misjafnlega fyrir og þá kom upp þessi lausn hjá Hjálpræðishernum. Á undraskömmum tíma var það borið undir foreldra og varð að veruleika.“

Samráð aldrei ólöglegt heldur gott verklag

Könnun sem gerð var meðal foreldra og starfsfólks skólans, hefur hlotið mikla gagnrýni, þá helst fyrir knappan tíma, öryggi könnunarinnar og að með henni væri verið að ýta ábyrgð yfir á foreldra.

Dagur telur ekki að ábyrgðinni hafi verið ýtt yfir á foreldra með könnuninni. Skólaráðið hafi staðið frammi fyrir því að fulltrúar foreldra hafi ekki talið sig hafa umboð til að taka afstöðu til þeirra kosta sem lágu fyrir.

Könnun í Mentor er að hans mati gott vinnulag sem foreldrar eru vanir.

Það hefur verið talað um ólöglega könnun en í mínum huga er samráð aldrei ólöglegt heldur gott verklag til að fá fram raddir fólks.

Lítill tími hafi verið til stefnu en svörun könnunarinnar hafi borið vitni um mikla þátttöku, sýnt skýran vilja og því vísbending um að rétt ákvörðun hafi verið tekin.

Ætlar ekki að draga það niður í „leiðindapólitík“

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins þykir kaldhæðni fólgin í því að Hjálpræðisherinn hlaupi nú undir bagga með borginni og taki á móti nemendum Fossvogsskóla, þegar borgarstjórn féllst ekki á að veita þeim lóð endurgjaldslaust á sínum tíma.

„Ég er bara þakklátur Hjálpræðishernum að koma til móts við þetta og ætla ekki að taka þátt í að draga það niður í leiðindapólitík,“ segir Dagur, inntur eftir viðbrögðum við þessum ummælum Eyþórs.

„Hjálpræðisherinn óskaði eftir því á sínum tíma að fá lóð og borgin fann hernum nýja lóð. Þá kom upp umræða um hvort lóðin ætti að vera ókeypis eins og um kirkju væri að ræða og það var ekki niðurstaðan.“

Tilraunirnar út í hött

Dagur segir uppbyggingu Hjálpræðishersins í nýju húsnæði farsæla og fallega og gott sé að nemendurnir geti fengið þar inni.

„Það kemur mér ekki á óvart að herinn erfi þetta ekki við borgina. Tilraunir stjórnmálamanna til að búa til neikvæða umræðu milli Hjálpræðishersins og Reykjavíkurborgar eru út í hött og ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.“

Hjálpræðisherinn og borgin hafi átt farsælt samband árum saman, en herinn hafi til að mynda fengið að halda jólamáltíðsína í ráðhúsinu meðan nýja húsið var í byggingu.

Skólastarf í færanlegu kennslurýmin í september

Foreldrar, starfsfólk skólans og aðrir sem koma að málinu virðast hafa takmarkaða trú á því að skólastarf verði komið í færanlegu kennslurýmin innan tilsetts tíma. Hafa einhverjir lýst yfir áhyggjum af því að ástandið sé ekki jafn tímabundið og kynnt hefur verið.

Dagur segist hafa góð orð fyrir því að ætlunin sé að koma stofunum upp eins hratt og hægt er og að skólastarf færist þangað í september.

Dagur hefur ekki haft sig mikið í frammi til þessa í tengslum við mál Fossvogsskóla en Eyþór Arnalds fann einnig að því í áðurnefndu viðtali.

Dagur bendir á að mál sem þessi séu flókin. Meirihluti umræðunnar hafi snúið að stöðu framkvæmda, næstu skref og tilhögun skólastarfs.

„Það er sjálfsagt mál að ég svari því sem að mér er beint en það er auðvitað skynsamlegt að afla upplýsinga þar sem verið er að vinna verkin á hverjum tíma og þekkingin er best. Það gildir í þessu máli eins og öðrum“

mbl.is