Flutningur á stöðugildum sérnámslækna skýri aukninguna

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Þórður

Landspítalinn segir að það sé misskilningur, eins og komi fram í Morgunblaðinu í dag, að skrifstofa spítalans „hafi blásið út“. 

Rétt er að taka fram að tölur Morgunblaðsins eru teknar upp úr svörum heilbrigðisráðuneytisins til Alþingis. 

Fram kemur í yfirlýsingu spítalans, að rétt sé að stöðugildi um 170 námslækna hafi verið flutt til innan spítalans í maí 2020, frá sviðum og til skrifstofu framkvæmdastjóra lækninga og skýri það þá aukningu sem dregin er fram.

„Þessir læknar störfuðu, og starfa enn jafnmikið við sjúklinga og lækningar eins og fyrir breytinguna. Um er að ræða miðlægt utanumhald og skipulag m.a. vegna alþjóðlegrar vottunar Royal College of Physicians í London sem er virtur samstarfsaðili í verkefnum sem þessum víða um heim,“ segir í yfirlýsingu spítalans. 

Sérnám lækna á Landspítala

„Sérnámið hefur getið sér gott orð og er forsenda bæði klínískrar þjónustu og mönnunar í lækningum til framtíðar. Því er hér um að ræða lækna í sérnámi sem stunda sitt starfsnám á Landspítala og hafa m.a. leikið lykilhlutverk í viðbragði spítalans í COVID faraldrinum. Sérnámslæknar sinna þannig ekki skrifstofustörfum heldur sérnámi sínu og klínískri vinnu á spítalanum.

Morgunblaðið leitaði ekki skýringa eða viðtals við stjórnendur við vinnslu fréttarinnar og kann það að skýra framsetninguna,“ segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert